Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, Nýársdag, ásamt þrettán öðrum. Vakti þetta mikla umræðu í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin.
Viðurkenninguna fékk Elísabet fyrir framlag til kvennaknattspyrnu og annarra íþrótta. Hún er nýhætt með sænska liðið Kristianstad eftir fimmtán frábær ár þar.
Ekki eru allir sammála þessu.
„Langt á undan Heimi Hallgrímssyni sem kom Íslandi á HM, smæsta þjóð sem hefur komist þangað. Hans fálkaorða hefur sennilega týnst uppi í rassgatinu á einhverjum hálfvita. Ég veit ekki hver djöfullinn er í gangi þarna,“ segir Kristján Óli Sigurðsson, sparkspekingur, í Þungavigtinni.
„Elísabet er ágætlega að þessu komin en hefur ekki unnið einn einasta málm í Svíþjóð,“ bætti hann við.
„Fyrir hvað er hún þá að fá þetta?“ skaut Mikael Nikulásson inn í.
Kristján botnar hreinlega ekki í því af hverju Heimir hefur ekki hlotið orðuna fyrir árangur sinn með íslenska karlalandsliðið.
„Ef ég væri Heimir Hallgrímsson myndi ég ekki svara þessari orðunefnd.“