Þorkell Sigurlaugsson, athafnamaður og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir hörmungar hafa fylgt sjókvíaeldi í opnum kvíum í fjörðum landsins og að starfsemin hafi einkennst af yfirgangi norskra fjárfesta. Þetta kemu fram í aðsendri grein á Vísir.is. Þorkell ritar:
„Ekkert er að því að fá erlenda fjárfesta en þeir þurfa ekki að koma inn eins og nýlenduherrar og við taka á móti þeim eins og fávísar nýlenduþjóðir gera. Ófullkomin löggjöf og regluverk var smíðað um fiskeldi með hagsmunaaðilum þar sem spillingin innan og utan stjórnsýslunnar varð síðar meir augljós. Slakt eftirlit með nýlenduherrunum og leppum þeirra varð síðan til þess að laxar sluppu úr kvíum, voru kynþroska og sýktir. Það var svo kaldhæðni örlaganna að fá þurfti hingað norska kafara til að drepa laxana, þennan vágest í laxveiðiám landsins.“
Þorkell bendir á að greiðsla fyrir auðlindina hafi verið afar takmörkuð og því sitji margir norsku aðilanna eftir með digra sjóði eftir að hafa braskað með ágóðann á hlutabréfamörkuðum. Hann segir ennfremur:
„Nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir, sérstaklega einn, tók þátt í þessu samfélagslega óábyrga, ósjálfbæra og sóðalega verkefni enda gróðavonin mikil. Hér fylgdu Norðmenn sömu aðferðinni og víða annars staðar; – það væri verið að bjarga dauðvona byggðarlögum, og meira segja búa til búskaparhætti sem mundi að lokum toppa allar þorskveiðar við Íslandsstrendur og jafnvel verði að aðalundirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Áhugaverð framtíðarsýn eða hitt þó heldur eins og vikið verður að hér að neðan.“
Þorkell bendir á að lús hefur verið vandamál í eldislaxi í Noregi áratugum annan en skæður lúsafaraldur kom upp hjá Artic Fish á Tálknafirði:
„Lús varð sífellt ágengari hér á landi og nota þarf kröftug lúsalyf til að vinna á lúsinni. Laxalús í eldislaxi hefur verið vandamál í áratugi í Noregi. Norskur framkvæmdastjóri eins fyrirtækisins á Íslandi lét að því liggja eins og þetta væri nýr og jafnvel óvæntur hlutur. Í tilfelli Tálknafjarðar nýlega var farið yfir strikið í þéttleika o.fl. og bæði Arnarlax og Arctic Fish hafa lent í fjárhagslegu tjóni. Matvælastofnun hefur talið fjölda lúsa á löxum úr sex sjókvíum Arctic Fish í Hvannadal í Tálknafirði. Þá fundust rúmlega 96 lýs á hverjum laxi að meðaltali. Laxalúsin étur roðið á laxinum þannig að sár myndast og bakteríur komast í sárin og stækka þau; laxarnir verða svo veikburða vegna þessa og drepast á endanum ef þeim er ekki slátrað áður en til þess kemur. Fólk spyr sig eðlilega hvaða áhrif þetta hefur á humar og rækju, þorsk í fjörðum landsins og önnur sjávardýr.“
Grein Þorkells er nokkuð löng og yfirgripsmikil en hann gagnrýnir skort á eftirliti með sjókvíaeldi og gerir alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun lögreglunnar að hætta rannsókn á slysasleppingum Artich Fish en MAST kærði fyrirtækið vegna slyssins í september síðastliðnum. Tvö göt komu sjókvínna sem leiddu til þess að mikill eldislax slapp út.
„Á fjórða þúsund laxar sleppa og hluti þeirra fer upp í árnar og hrygnir með villtum íslenskum laxi. Fengnir voru kafarar frá Noregi í haust til að ná fiski. Fram kom að 500 eldislaxar hafa veiðst í 50 ám í allt að 400 km. Langflestir laxanna voru kynþroska sem hefði ekki verið raunin ef ljós hefðu verið nýtt í kvíunum til að koma í veg fyrir kynþroska laxanna.
Þann 21. desember tilkynnti lögreglan á Vestfjörðum að hún teldi ekki grundvöll fyrir áframhaldandi rannsókn vegna þessara slysasleppinga. Taldi lögreglan að lagaumhverfið í málum sem þessum sé erfitt. Lögin séu meira leiðbeinandi um starfsemina fremur en refsilög. Því hafi verið útilokað að halda rannsókn áfram á starfseminni. Ég hugleiddi það eftir viðtalið hvort vestfirska lögreglan sé ekki vanhæf a.m.k. í erfiðri stöðu að fjalla um þetta mál vegna öflugrar starfsemi þessa fyrirtækis í sinni heimabyggð og jafnvel góðra tengsla við starfsfólk.“
Greinina má lesa hér.