Manchester United ætlar ekki að nýta sér ákvæði í samningi Raphael Varane og framlengja hann um eitt ár. Daily Mail segir frá.
Samningur Varane rennur út næsta sumar en kappinn hefur ekki staðist væntingar í treyju United heilt yfir.
Samkvæmt reglum má hann nú hefja viðræður við félög utan Englands um að ganga frítt til liðs við þau í sumar.
Að því sögðu útilokar United ekki að hafa hann áfram. Það er bara ekki til í að framlengja við hann á núverandi kaupi.
Varane er með 340 þúsund pund í vikulaun sem félagið telur allt of mikið. Er það opið fyrir því að framlengja við franska miðvörðinn ef hann tekur á sig væna launalækkun.
Má búast við að viðræður eigi sér stað á næstunni.