Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið, Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem erlendis.
Rætt var um sumar Breiðabliks í Bestu deild karla, liðið átti í vandræðum innanlands en gerði vel og komst fyrst íslenskra liða í riðlakeppni í Evrópu.
„Framan af var þetta gaman, héldum í Víkinga og komumst áfram í Evrópu. Það er geggjað að horfa á þessa Evrópuleiki, en það er ömurlegt að horfa á þessa Evrópuleiki á Laugardalsvelli,“ sagði Hrafnkell Freyr.
Blikar fóru í gegnum riðilinn án stiga og sumarið í deildinni endaði illa þar sem liðið gaf eftir og endaði í fjórða sæti.
„Ég mætti á báða leikina í Laugardalnum, það voru rúmlega þúsund á hvorum leiknum. Gegn Gent voru þar 300 Belgar, völlurinn var varla boðlegur í þessum leikjum,“ sagði Kristján Óli um málið og hélt áfram.
„Það var spennufall að komast í þetta, deildin fór eins og hún fór. Detta út úr bikarnum á grátlegan hátt, ég var brjálaður á leiðinni Norður.“
Hörður sagði mestu vonbrigðin vera þau að Blikar hefðu ekki getað nýtt sér augnablikin í deildinni til að komast í baráttuna. „Þetta var næstum því sumar, voru miklu betra lið en KA í undanúrslitum. Svo var þetta augnablik í heimaleiknum gegn Víkingi, Óskar mætir í þetta skemmtilega viðtal og segir Víkingum að segja að þeir séu að koma. Þeir nýttu það augnablik, það eru mestu vonbrigðin í sumar að þeir hafi ekki nýtt það augnablik til að koma sér í titilbaráttu.“
Umræðan um þetta er í spilaranum.