Hann sagði einnig að það muni aldrei koma til þess að Kóreuríkin tvö sameinist og fyrirskipaði her landsins að undirbúa sig undir að gjöreyða Suður-Kóreu og hafði um leið í hótunum um að beita kjarnorkuvopnum gegn Bandaríkjunum.
Hann sagði að Norður-Kórea geti ekki horft fram hjá aukinni veru bandaríska hersins á Kóreuskaga. Hann sagði jafnframt að vegna aðgerða Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra þá muni stríð brjótast út á Kóreuskaga á hverri stundu og það muni Norður-Kóreumenn búa sig undir.
Hann hefur verið heldur vígreifur að undanförnu, væntanlega í tengslum við landsfund Verkamannaflokks landsins sem hófst á annan dag jóla. Verkamannaflokkurinn er eini stjórnmálaflokkur landsins og stýrir Kim-fjölskyldan flokknum auðvitað eins og öllu öðru í þessu harðlokaða einræðisríki.
Hann fyrirskipaði hergagnaframleiðendum að auka framleiðsluna vegna stríðsundirbúnings og það sama gildir um kjarnorkuvopnaáætlun landsins.
Norður-Kórea ætlar að senda þrjá njósnagervihnetti á braut um jörðina og smíða dróna til að nota í stríði. Norður-Kórea skaut fyrsta njósnahnetti sínum á loft í nóvember og virðast hafa komið sér upp langdrægum eldflaugum sem drífa til Bandaríkjanna.
Norður-Kórea hefur lengi verið áhyggjuefni margra varðandi stöðugleika í þessum heimshluta. Her landsins telur 1,2 milljónir manna og allt að 5 milljónir eru í varaliði hersins. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur beitt landið ýmsum refsiaðgerðum til að reyna að fá Kim Jong-un til að hætta kjarnorkuvopnabrölti sínu en þetta hefur ekki skilað neinum árangri.