Dómstólinn úrskurðaði að dómur annars dómstóls frá í desember skuli „frystur“ að sinni. Í þeirri dómsniðurstöðu var komist að þeirri niðurstöðu að lögin brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti fólks til að bera vopn.
Gavin Newson, ríkisstjóri í Kaliforníu, skrifaði undir lögin í september. Samkvæmt þeim er bannað að bera skotvopn á 26 stöðum sem eru flokkaðir sem „viðkvæmir“. Þetta eru meðal annars sjúkrahús, leikvellir, íþróttaleikvangar og dýragarðar. Bannið nær einnig til þeirra sem hafa leyfi til að bera skotvopn hulin.
Í júní 2022 sló hæstiréttur Bandaríkjanna því föstu að breyting á vopnalöggjöfinni í New York ríki væri andstæð stjórnarskránni. Þessi dómur þýðir í raun að hæstiréttur segir að í öllum ríkjum Bandaríkjanna hefur fólk rétt til að bera vopn á almannafæri.
Kalifornía er meðal þeirra ríkja sem eru með ströngustu vopnalöggjöfina. Þrýsti- og hagsmunahópar hafa fært rök fyrir að nýju lögin brjóti gegn stjórnarskránni og hafa því höfðað mál til að fá lögin felld úr gildi.
Cormac Carney, dómari í Kaliforníu, tók undir með þessum þrýsti- og hagsmunahópum og „frysti“ gildistöku laganna þann 20. desember og átti sú „frysting“ að gilda þar til málaferlin væru afstaðin. Carney var skipaður í embætti af George W. Bush þegar hann gegni forsetaembættinu. En nú hefur þessi dómur verið „frystur“ að sinni.