Eldri sonur hennar, Friðrik, tekur við sem þjóðhöfðingi og verður Friðrik X. Eiginkona hans, hin ástralska Mary, verður um leið drottning.
Margrét nýtur mikilla vinsælda meðal dönsku þjóðarinnar og það sama á við um Friðrik og Mary. Eins og gefur að skilja verða einhverjar breytingar á starfsemi hirðarinnar þegar Friðrik verður konungur og veðja flestir sérfræðingar í málefnum hirðarinnar á að starfsemin verði nútímavædd að einhverju leyti en Margrét er nokkuð íhaldssöm.
Þá mun elsta barn Friðriks og Mary, Kristján (Christian), verða krónprins og um leið mun hann byrja að gegna stærra hlutverki á opinberum vettvangi. Krónprinshjónin hafa fram að þessu haldið honum að mestu utan kastljóss fjölmiðla en nú verður breyting þar á þar sem Kristján mun gegna ákveðnu hlutverki varðandi stjórnskipun landsins.
En víkjum aftur að verðandi konungi, Friðriki krónprins. Hann er eldri sonur Margrétar og eiginmanns hennar, Hinriks heitins prins. Yngri sonur þeirra er Jóakim. Hann býr í Washington D.C. um þessar mundir og gegnir stöðu hermálafulltrúa hjá danska sendiráðinu.
Þegar Friðrik var um 10 ára gamall var Jóakim bróður hans sagt að hann myndi erfa Schackenborg höll. „Hvað fæ ég?“ spurði Friðrik þá og fannst sem hann fengi ekki sanngjarna meðferð þarna.
„Þú munt erfa alla Danmörku,“ sagði móðir hans þá og þetta fannst prinsinum undarlegt svar.
Hann skýrði sjálfur frá þessu í bókinni „Under bjælken“ sem var gefin út 2017.
En nú er hans tími runninn upp og hann erfir Danmörku alla þann 14. janúar næstkomandi. Hann hefur haft góðan tíma til að undirbúa sig undir nýja hlutverkið en hann er orðinn 55 ára og hefur markað sér sinn eiginn stíl og hefur ekki alltaf fetað í fótspor móður sinnar.
Lars Hovbakke Sørensen, sagnfræðingur og sérfræðingur í málefnum hirðarinnar, sagði í samtali við TV2 að Friðrik sé mjög ólíkur móður sinni. „Hún er meira menntamannatýpan en hann er með meiri áhuga á hreyfingu. Það er því munur á hvernig þau eru sem þjóðhöfðingjar,“ sagði hann.
Í bókinni „Under bjælken“ segir Friðrik að foreldrar hans hafi ekki verið mjög góð í að útskýra fyrir honum hvað fælist í að vera krónprins og að þetta hafi gert að verkum að hann var óöruggur, feiminn og klaufalegur sem barn.
En hann hefur breyst að mati sérfræðinga sem segja hann viljasterkan og góðan í að ræða við fólk á alþýðlegum nótum.
Ulla Terkelsen, fréttamaður TV2, sagði að Friðrik sé góður í að ræða við fólk á alþýðlegum nótum án þess að virðast yfir það hafinn. „Það er augljóst að fólk slakar á nærri honum. Það er stór kostur. Hann hefur vinalega útgeislun sem segir: „Hann er einn af okkur“. Það er mikilvægt í nútíma konungdæmi þar sem hinir konungbornu verða að feta stigið á milli þess að vera alþýðlegir og aðgengilegir en um leið vera tákn konungdæmis sem er í sjálfu sér ólýðræðislegt,“ sagði hún.
Flestir Danir þekkja ekkert annað en að Margrét sé þjóðhöfðingi en nú verður breyting á og allt önnur manngerð tekur við embætti þjóðhöfðingja um miðjan mánuð.
„Friðrik krónprins heillast af rokki og poppi en Margrét drottning af klassískri tónlist. Hann hefur áhuga á hreyfingu og íþróttum en hún hefur áhuga á hinu bóklega og menningu,“ sagði Terkelsen og bætti við að margir segi að Friðrik falli betur að nútímanum en móðir hans.
Þetta sést vel í áhugamálum hans, hreyfingu og fleiru, og einnig klæðast krónprinshjónin sig oft mun frjálslegar en Margrét. Þau eru oft í gallabuxum og strigaskóm.
Að mati sérfræðinga þá verða stærstu áskoranir Friðriks á hinum opinbera vettvangi þegar kemur að formlegum og stífum viðburðum. Hann á það til að leiðast á slíkum samkomum og hann er ekki eins góður í að flytja ræður og móðir hans er.