Margrét Erla Maack, sjónvarpskona með meiru, lét sig ekki muna um að taka ljósmynd af gömlu fermingarmyndinni þegar DV bað hana um að deila henni ásamt minningu um fermingardaginn. Margrét Erla er ung að árum og því ekki ýkja langt síðan hún fermdist, en það var árið 1998. Margrét Erla segir að hún myndi ekki fermast í dag:
„Ég fermdist daginn eftir 14 ára afmælisdaginn minn, 26. apríl 1998. Ég fermdist í Dómkirkjunni, ekki í Hallgrímskirkju eins og flestir skólafélagar mínir því að mig langaði að kynnast fleira fólki. Ég er ekki trúuð í dag, og ef ég hefði verið ögn þroskaðri hefði ég ekki fermst. Hins vegar hefði ég ekki viljað sleppa þessu partíi. Ég hélt ræðu og í dag fordæmi ég fermingarbörn sem eru svo feimin að þau geta ekki sagt „gjörið svo vel“ og einu sinni hótaði ég móður minni að við myndum taka gjöfina aftur heim ef gestgjafinn gæti ekki einu sinni „feikað“ að það væri gaman að hafa okkur í veislunni. Systir mín og frænka dönsuðu dans sem ég samdi, Óli besti frændi minn hélt ræðu og svo var pabbi með leynigest – það var bundið fyrir augun á mér og ég látin giska á hver það var. Ég gat það ekki, en svo þegar tekið var frá augunum þá var það drengur sem vann í bakaríinu í hverfinu og mér fannst agalega sætur. Þarna held ég að unglingaveikin hafi náð hámarki og kulnað nokkuð snögglega eftir þetta. Ég er mjög fegin að hafa ekki farið sömu leið og fermingarsystur mínar í klæðavali – þær voru allar í kínakjólum og „jungle boots“-kuldaskóm, en ég var í brúðarkjólnum hennar mömmu.“