Fyrir rúmu ári síðan bárust þau tíðindi að barnastjarnan Aaron Carter væri látinn, en hann fannst látinn í baðkari á heimili sínu snemma í nóvember 2022.
Til að bæta gráu ofan á svart fyrri Carter-fjölskylduna þá var eldri bróðir Aaron, Nick Carter sem gerði garðinn frægan með Backstreet Boys, sakaður um kynferðisbrot mánuði síðar, og það ekki í fyrsta sinn, og í apríl á þessu ári var honum stefnt fyrir dóm af söngkonunni Melissa Schuman sem sakar Nick um að hafa brotið gegn sér árið 2003. Nick hefur þvertekið fyrir ítrekaðar ásakanirnar og segir lögmaður hans þær stafa frá konum sem séu á höttunum eftir peningum og frægð, en ekki mun vera óþekkt að frægir einstaklingar vísi ásökunum á bug með áþekkum rökum.
Nú hefur enn einn harmleikurinn riðið yfir Carter-fjölskylduna, en systir Nick og Aaron, Bobbie Jean, fannst látin á heimili sínu í Flórída um helgina. Bobbie var 41 árs og var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús eftir að hún fannst meðvitundarlaus inni á baðherbergi sínu. Bobbie hafði lengi glímt við fíknisjúkdóm, en hún var á skilorði eftir að hafa hlotið dóm fyrir að hafa kókaín í vörslum sínum. Herbergisfélagi hennar segir í samtali við fjölmiðla að Bobbie hafi ekki snert fíkniefni síðan hún slapp úr fangelsi.
Segja má að aðdáendur Carter-fjölskyldunnar séu slegnir óhug eftir þessi tíðindi. Aðeins um ári eftir að Aaron fannst látinn, inni á baðherbergi sínu, finnst systir hans látin inn á sínu baðherbergi. Ekki nóg með það heldur lét önnur systir þeirra, Leslie, lífið árið 2012 eftir að hún fannst meðvitundarlaus í sturtu. Leslie reyndar komst til meðvitundar, en sagðist ekki líða nógu vel. Hún ákvað svo að leggja sig og vaknaði aldrei aftur. Við krufningu kom í ljós að hún hefði hún ekki fallið þá hefði hún líklega látið lífið sökum þess magns af fíkniefnum sem í blóði hennar greindist.
Enn er óljóst hvað dró Bobbie Jean til bana, þó talið séu líkur á því að hún hafi farið í hjartastopp. Banamein Aaron var drukknun. Talið er að barnastjarnan hafi sofnað í baði undir áhrifum vímugjafa sem hann hafði tekið inn fyrr um daginn. Hann hafði tekið inn sljóvgandi lyf á borð við alprazplam og xanax.
Carter-systkinahópurinn er nokkuð stór, en þeim fékk almenningur að kynnast í raunveruleikaþáttunum House of Carters. Elst þeirra er Virgina Marie Carter úr fyrsta hjónabandi Robert Gene Carter. Síðan giftist Robert Gene að nýju og þá kom Nick, Bobbie Jean, Leslie og svo tvíburarnir Aaron og Angel. Aftur gifti Robert sig og þá kom yngsta systkinið Kaden Brent og eins bættist stjúpsystirin Taelyn í hópinn.
Leslie, Aaron og Bobbie Jean voru alsystkin en móðir þeirra sagði í samtali við fjölmiðla í vikunni að hún sé í áfalli og það muni taka hana tíma að ná áttum á ný, enda í þriðja sinn sem hún stendur í þeim sporum að þurfa að jarða barn sitt. Hún sé því í engu standi til að koma með yfirlýsingu og óskar eftir andrými til að syrgja.
Tvíburasystir Aaron, Angel, skrifaði á samfélagsmiðlum í vikunni um eldri systur sína:
„Lífið fór ómjúkum höndum um þig, það veit ég vel. Stundum fannst mér eins og þú hafir aldrei átt séns, alveg sama hvað. Ég veit hvers vegna Leslie, Aaron og nú þú, enduðuð í þessum aðstæðum sem þið gerðuð. Ég deili þessum sársauka sem við upplifðum í æsku með ykkur og mér þykir leitt að þið fenguð ekki færi á betra lífi.“
Líf Carter-fjölskyldunnar átti eftir að breytast til frambúðar þegar Nick sló í gegn með drengjahljómsveitinni Backstreet Boys. Skyndilega áttu þau nóg af peningum og áttu greiða leið inn í sviðsljósið. Því fór svo að Aaron var teflt fram sem yngri útgáfu af „hjartaknúsara“ bróður sínum og sló hann í gegn meðal yngri kynslóðarinnar. Svo bættust við raunveruleikaþættir, og athyglin varð sífellt meiri og lagðist þyngra á fjölskylduna. Fjölskyldufaðirinn og móðir Nick, Aaron, Leslie, Angel og Bobbie Jean, rifust heiftarlega fyrir framan börnin og voru drykkfelld. Staðan batnaði ekki með stjúpmóðurinni Ginger, en Robert beitti hana grófu ofbeldi. Börnin hættu að fá aðhald, höfðu greiðan aðgang að peningum og lítið eftirlit haft með þeim. Mörg þeirra fóru af beinu brautinni og veiktust af fíknisjúkdómum sem átti eftir að fylgja þremur þeirra að gröfinni.