Hæstiréttur Íslands hefur snúið við máli konu gegn stjúpdóttur sinni og stjúpbarnabörnum. Vildi hún fá gjafagjörning á málverkum, sem maður hennar gerði skömmu fyrir andlát sitt, skilgreindan sem arf. Konan tapaði málinu á fyrri dómstigum en vann það í Hæstarétti. Þá var hún hins vegar dáin.
Eiginmaður konunnar hafði ráðstafað átta málverkum til dóttur sinnar og tveggja barnabarna í desember árið 2018. Skjalið hét „Um ráðstöfun málverka minna“ og innihélt þrjú málverk eftir Jóhannes Kjarval og stök málverk eftir Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Blöndal, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og Svein Björnsson. Verðmætið er talið vera um 10,5 milljónir króna. Lést maðurinn skömmu seinna.
Kona hans taldi þennan gjörning vera í ósamræmi við sameiginlega erfðaskrá þeirra frá 1. september árið 2016. Stefndi hún því niðjum manns síns til þess að fá gjörninginn ógiltan og gjöfina skilgreinda sem hluta af óskiptum arfi þeirra.
Konan og maðurinn giftust árið 1980 en áttu engin börn saman. Hann eignaðist þrjár dætur í fyrra hjónabandi en stjúpdóttirin í þessu máli er sú eina þeirra sem enn lifir. Barnabörnin eru börn annarrar stjúpdóttur sem er látin.
Samkvæmt erfðaskrá fékk konan að sitja í óskiptu búi en aðrir erfingjar eftir þau hjónin voru systir hennar og systurdóttir sem og Samband íslenskra kristniboðsfélaga.
Fyrir utan málverkin voru eignirnar í búinu nokkrar, meðal annars efnalaug og fasteign. Höfðu þau þó tapað nokkuð á hlutabréfaeign í bankahruninu árið 2008.
Eftir að maðurinn hafði skrifað undir gjörninginn, 95 ára gamall, var hann fluttur á sjúkradeild dvalarheimilisins Skógarbæs og lést þar rúmum tveimur mánuðum seinna. Konan fékk ekki að vita af þessum gjörningi og uppgötvaðist hann fyrir tilviljun. Stjúpdóttirin var hins vegar viðstödd undirritunina.
Konan fékk lögmann til að spyrjast fyrir um málverkin og reyna að fá þau afhent til hins óskipta bús sem hún sat í. Síðar var svo farið fram á að verkin yrðu skilgreind sem hluti af óskiptum arfi þessara niðja.
Í svari lögmanns stjúpdótturinnar og barnabarna sagði að þau myndu ekki taka afstöðu til málsins fyrr en að skiptum kæmi, sem sagt eftir að konan væri látin. Stefni hún þeim þá til héraðsdóms.
Í maí árið 2021 sýknaði dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur niðjar mannsins af kröfum konunnar. Taldi dómari að með sameiginlegri erfðaskrá hefði maðurinn ekki takmarkað sér svo ráðstöfunarrétti eigna sinna að honum hafi verið óheimilt að gefa þær eins og hann sjálfur kaus og gerði með téðum gerningi. Landsréttur staðfesti þennan dóm í júní árið 2022.
Þegar málið kom til Hæstaréttar var konan látin en dánarbú hennar hélt málarekstrinum áfram. Þá var niðurstöðunni hins vegar snúið við.
„Að öllu framangreindu virtu verður talið að gjöf sú sem um ræðir hafi eftir efni sínu verið dánargjöf sem lúta þurfti reglum sem um erfðaskrár gilda, sbr. 54. gr. erfðalaga. Þeirra reglna var ekki gætt og er gerningurinn því ógildur,“ segir í dóminum sem féll í dag, 29. desember. Málskostnaður var felldur niður á öllum dómstigum.