Thierry Henry kallar eftir því að fleiri myndavélar verði á völlum í ensku úrvalsdeildinni eftir að afar umdeilt mark West Ham gegn Arsenal fékk að standa í gærkvöldi.
Tomas Soucek kom West Ham yfir í fyrri hálfleik en liðið vann að lokum 0-2 sigur. Jarrod Bowen hafði, að mati Michael Oliver dómara, haldið boltanum naumlega í leik í aðdraganda marksins.
Margir eru á því að boltinn hafi verið kominn úr leik en dómarar og VAR gátu ekki sannað það með þeim myndavélum sem voru á vellinum og þurftu því að halda sig við upprunanlegu ákvörðunina.
„Þetta er í annað skiptið sem við lendum í þessu, líka gegn Newcastle úti. Ef þú vilt hjálpa dómurum og fá rétt sjónarhorn verður að vera myndavél fyrir ofan boltann,“ segir Arsenal goðsögnin Thierry Henry.
„Það er 2023, brátt 2024 og við erum ekki enn með myndavélar fyrir ofan. Það er svo oft sem þú veist ekki hvort boltinn er farinn út af. Það er ómögulegt að sjá það.“