„Ég trúi ekki á megrunarkúr sem fela í sér að fólk á að lifa meinlætalifnaði og á algjörlega annan hátt en það er vant, því þetta virkar ekki til lengdar. Það sem maður á að gera, er að gera nokkrar litlar breytingar sem skipta máli. Þetta á að gerast hægt og rólega, aðeins minni matur, aðeins meiri hreyfing.“
Þetta sagði Frank Henriksen, sem kennir líkamsþjálfun við Íþróttaskólann í Árósum í Danmörku, í samtali við Jótlandspóstinn. Hann sér um menntun einkaþjálfara sem fara síðan til starfa í líkamsræktarstöðvum um alla Danmörku og hjálpa fólki að léttast. Hann hefur einnig árum saman ráðlagt fólki hvernig það getur losnað við aukakíló.
Hann segir mörg dæmi um að fólk hafi náð varanlegum árangri við að losna við aukakílóin en það séu einnig dæmi um að fólk hafi bætt öllu á sig á nýjan leik eftir að hafa lést mikið. Það er einmitt það sem er vandinn við marga megrunarkúra. Kúnstin er ekki að léttast um mörg kíló á skömmum tíma, hún er að viðhalda nýju lágu kílóatölunni.
Borðaðu minna og farðu í göngutúr – Fyrsta ráð Henriksen er að borða aðeins minna. Hann leggur ekki bann við því að fólk borði hvítt brauð eða pasta. Það sem skiptir máli er að skammtarnir séu minni, til dæmis þrjár kjötbollur í staðinn fyrir fjórar. „Maður þarf að átta sig á hvort maður borðar af svengd eða af því að það er huggulegt. Margir borða með augunum og öllum skilningarvitunum og gleyma því auðveldlega að maður hefur náð því stigi að maður er ekki lengur svangur og getur alveg eins hætt að borða,“ sagði hann. Hann sagði það góða hugmynd að setja grænmeti á diskinn áður en kjötið er sett á hann, því þá er minna pláss fyrir það sem maður á að borða minnst af.
Hreyfðu þig meira – Annað ráð hans er að hreyfa sig meira og það þarf að koma upp kerfi varðandi hreyfinguna þannig að hún eigi sér stað daglega. Þetta þarf ekki að vera mjög krefjandi hreyfing. Hann sagði það einfalt að gera þetta að vana, til dæmis að fara alltaf í göngutúr eftir kvöldmatinn í staðinn fyrir að hlamma sér fyrir framan sjónvarpið. Þetta geti verið 30 til 60 mínútna göngutúr, jafnvel með makanum þar sem málin eru rædd.
Mataráætlun – Þriðja ráð hans er að gera mataráætlun. Á hverjum sunnudegi á að skipuleggja hvað verður í kvöldmatinn næstu vikuna. Því næst á að versla inn fyrir alla vikuna. Þetta dregur úr stressi í hinu daglega lífi og þessi skipulagning gerir að verkum að maður sleppur við skyndikaup á óhollum vörum í búðinni. Svo borðar maður minna ef búið er að skipuleggja að afgangar eins dags verði á boðstólum næsta dag.
Ekki telja hitaeiningarnar – Fjórða ráð hans er að sleppa því að telja hitaeiningarnar sem eru innbyrtar. Margir, sem vilja léttast, eru mjög meðvitaðir um hversu margar hitaeiningar þeir innbyrða yfir daginn. Hjá venjulegum fullorðnum einstaklingi eru þetta um 2.000 hitaeiningar. Henriksen telur rangt að einblína á hitaeiningarnar. „Það er gott að íþróttafólk í fremstu röð telji hitaeiningar eða ef maður sjálfur ef maður hefur næringarfræðing til að aðstoða sig við það. En ég ráðlegg fólki að sleppa því að byrja að telja hitaeiningar og vigta matinn sinn. Maður á frekar bara að borða aðeins minna og sleppa aukakjötbollunni,“ sagði hann.
Taktu ljósmynd – Fimmta ráð hans er að þegar hafist er handa við að reyna að léttast sé byrjað á að taka mynd af fótum sínum á baðvoginni þannig að þyngdin sjáist. Þetta á síðan að gera á hverjum föstudegi. Með þessu er auðvelt að muna hver upphafspunkturinn var.