David Raya, markmaður Arsenal, hefur tjáð sig um samband sitt við Aaron Ramsdale en þeir eru samherjar hjá félaginu.
Ramsdale var aðalmarkvörður Arsenal á síðustu leiktíð og stóð sig með prýði en missti sæti sitt í sumar eftir að Raya var fenginn til Arsenal frá Brighton.
Ramsdale er auðvitað ekki sáttur með að vera á bekknum en Raya fær að spila nánast alla leiki enska stórliðsins.
Raya viðurkennir að Ramsdale hafi staðið sig vel í fyrra en þeir félagar reyna að hundsa alla þá gagnrýni sem heyrist í fjölmiðlum sem og á samskiptamiðlum.
,,Það er stórmál þegar annar markmaður mætir allt í einu til félagsins. Aaron átti stórkostlegt tímabil í fyrra en ég er mættur til að hjálpa liðinu að vinna leiki sem ég fæ að spila,“ sagði Raya.
,,Samband okkar er mjög gott og við reynum að hjálpast að á æfingum, við viljum bæta okkur. Við hlustum ekki á það sem heimurinn er að segja, við einbeitum okkur að liðinu.“