Birmingham er þegar farið að skoða arftaka Wayne Rooney, stjóra liðsins, að sögn enskra miðla.
Rooney tók við Birmingham í október og var John Eustace látinn fara nokkuð óvænt þrátt fyrir fínan árangur.
Manchester United-goðsögnin skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning en það hefur lítið gengið upp. Liðið hefur aðeins unnið tvo af þrettán leikjum undir hans stjórn og er í 19. sæti ensku B-deildarinnar.
Enski miðillinn Mirror segir að Birmingham sé þegar farið að skoða hugsanlega arftaka Rooney í ljósi slaks gengis.
The Sun segir þá frá því að Birmingham horfi sérstaklega til Steve Cooper, sem var látinn fara frá úrvalsdeildarliðinu Nottingham Forest á dögunum.
Cooper hefur áður gert vel með lið sem var í nokkrum erfiðleikum í B-deildinni, Forest tímabilið 2021-2022.