fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Lífið breyttist á einni nóttu eftir örlagaríkan og alvarlegan trúnaðarbrest – „Ég fékk, ég leyfi mér að segja það, taugaáfall þetta var svo erfitt“

Fókus
Fimmtudaginn 28. desember 2023 20:49

Doktor Wolfram og Mummi á góðri stundu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Wolfram Pétursdóttir, eða doktor Wolfram eins og hún mun vera kölluð, fór aðra leið í lífinu en jafnaldrar hennar úr Garðabæ. Þegar aðrir fóru í framhaldsskóla hélt hún 16 ára í sveitina þar sem hún eignaðist börn og sinnti búskap. Áratug síðar hafði lífið tekið kúvendingu og sat hún þá á skólabekk í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði þar sem hún nam umhverfisfræði.

Þaðan varð ekki aftur snúið, en Þórunn er með eindæmum forvitin um lífið, tilveruna og hvernig allt tengist saman í órjúfanlega heildarmynd.

Næstu 25 árin hélt hún áfram menntaveginn en þræddi leiðir sem á þeim tíma lágu ekki endilega saman, enda menntakerfið þá byggt upp í þekkingarsílóum sem henta ekki þeim sem vilja ná yfirsýn. Þórunn Wolfram Pétursdóttir, viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins hefur sérhæft sig í greina samþætt kerfi manns og náttúru út frá nýtingu mannfólks á auðlindum jarðar og meta hvar jafnvægið liggur. Hvenær er nóg nóg? Í þættinum ræða þau Mummi meðal annars hvað fékk litlu feimnu og óframfærnu stelpuna til að rísa upp og verða málsvari náttúrunnar og hvernig drifkraftur hennar hefur oftar en einu sinni orðið henni fjötur um fót.

Jói danski

Ekki eru mörg ár síðan að Þórunn tók upp ættarnafnið Wolfram. Nafnið kemur frá afa hennar, Johan Wolfram eða Jói danski, sem villtist óvart til Íslands. Hann hafði ætlað til Kanada í leit að betra lífi, en átti þó ekki fyrir fargjaldinu svo hann nam land á Kirkjubæjarklaustri til að vinna fyrir farmiðanum á áfangastað.

„Hann hitti þá ömmu, heimasætu í sveitinni, og fór ekkert lengra.“

Þórunn var svokallað „á undan barn“, en móðir hennar var aðeins 18 ára gömul þegar Þórunn kom í heiminn og var ekki í sambandi með barnsföður sínum. Stjúpfaðir Þórunnar kom þó fljótlega í líf hennar en nokkur aldursmunur er þó með henni og hálfsystkinum hennar.

Þrátt fyrir að vera elskuð í klessu, eins og hún orðar það sjálf, þá fann hún sig í sveitinni hjá ömmu sinni og afa á sumrin og upplifði að hún ætti ekki beint heima með jafnöldrum sínum eða í fjölskyldu sinni þar sem hún hafði ekki náð að festa rætur heim eða í sveitinni. Hún áttaði sig á því þegar hún var fullorðin að hún upplifði sig einmana í æsku, þrátt fyrir að vera vel meðvituð um að öllu fólkinu hennar þætti gífurlega vænt um hana og vildu henni ekkert nema það allra besta.

„Ég einhvern veginn, tilfinningin að hugsa til baka, er að ég tilheyrði mig svolítið hvergi. Sem er rosalega skrítið því ég var elskuð, ég veit það. Mamma elskar mig í klessu, amma elskaði mig í klessu og báðir feður mínir. En einhvern veginn voru aðstæður þannig að ég var rosa afskipt, upplifun mín þó ég viti að allir voru að gera sitt besta. Ég var mikið ein og ég var einmana“

Þarna spilaði inn að í sveitinni voru viðhafðir gamlir hættir þar sem ekki þótti við hæfi að bera tilfinningar sínar á borð, þó svo nóg væri að hlýju og kærleik.

Þórunn flutti svo að heiman aðeins 15 ára gömul, eignaðist kærasta og fór að búa ári síðar og upplifði sig loksins festa rætur í sveitinni hjá tengdaforeldrum sínum. Þegar uppúr slitnaði og Þórunn þá 24 ára með tvö börn biðu þó foreldrar hennar með opin faðminn og hjálpuðu henni að koma undir sig fótunum að nýju.

Til að gera langa sögu stutta þá enduðu umhverfismál með að sigra hjarta hennar og breyta stefnu lífsins. Hún var að vinna við doktorsritgerð þegar hún rak augun í auglýsingu frá Bjartri framtíð sem var að leita að fólki í málefnastarf. Þórunn sá að flokkurinn ætlaði að láta umhverfis- og loftslagsmál til sín taka, og það þótti henni spennandi.

Allt í einu aðstoðarmaður ráðherra

Þórunn kom inn í Bjarta framtíð skömmu áður en flokkurinn hafnaði í ríkisstjórn.

„Og þar var tekið ofboðslega vel á móti mér og þar var rosalega gaman. Frábær hópur að fólki með hjartað á réttum stað og eitt leiddi að öðru og allt í einu var Björt Framtíð komin í ríkisstjórn og ég var orðinn aðstoðarmaður þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjartar Ólafsdóttur, og hún treysti mér fyrir því að koma með sér – við þekktumst ekkert á þessum tíma – en hún treysti mér að koma með sér inn í ráðuneytið og vera þá sú sem myndi taka loftslagsmálin og hjálpa henni að passa upp á að gíra þau upp. Svo var annar kollegi minn þarna líka og hann var meira þá í miðhálendisþjóðgarðsmálinu því þetta voru hennar tvö helstu áherslumál í ráðuneyti.

Þú getur rétt ímyndað þér hvað þetta var gaman. Að vera komin á þann stað að raunverulega geta haft áhrif á hluti, að þeir breytist, ekki út frá því sem ég vildi heldur út frá því sem ég upplifði, þekkti og skildi að gæti orðið til að bæta aðstæðurnar. Allt í einu var ég komin í þá stöðu að ég var komin í launalaust leyfi frá landgræðslunni, og landgræðslan er stofnun sem var undir þessu ráðuneyti.“

Allt breyttist á einni nóttu

Þórunn hafði áður verið hjá Landgræðslunni, sem er opinber stofnun sem þá heyrði undir ráðuneyti Bjartar. Hún fékk því að kynnast nýrri hlið og þeim málum sem hún hafði áður unnið að, og átti eftir að koma að aftur síðar.

„En svo náttúrlega bara sprakk ríkisstjórnin um haustið og ég fékk, ég leyfi mér að segja það, næstum taugaáfall, eða alveg taugaáfall, þetta var svo erfitt. Því allt hvarf í einu – yfir nótt – að allt sem ég ætlaði að gera og hjálpa til – ég var ekki ráðherra….“

Ríkisstjórnin varð nefnilega ekki langlíf, en eftir aðeins átta mánuði við völd sleit Björt framtíð ríkisstjórnarsamstarfinu sökum alvarlegs trúnaðarbrests milli flokksins og þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson. Um var að ræða upplýsingar um mál Hjarta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, en uppljóstrað hafði verið að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, hafði skrifað undir meðmælabréf til stuðnings þess að Hjalti fengi uppreist æru. Hafði Bjarni fengið upplýsingar um tilvist bréfsins sumarið 2017 en ekki upplýst formenn samstarfsflokkana um það fyrr en í september.

„Og ég tók þetta svo nærri mér, ekki út frá sjálfri mér heldur út af öllum verkefnunum sem við vorum að vinna að,“ segir Þórunn en mikil málefnavinna hafi verið í gangi innan ráðuneytisins og mörg góð mál döguðu uppi í kjölfarið.

„Þetta var ofboðslega erfitt“

Hlusta má á viðtalið við Þórunni og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar