Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið, Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem og erlendis.
Rætt var um Arnar Þór Viðarsson sem var rekinn sem landsliðsþjálfari en hann var um tíma einnig yfirmaður knattspyrnumála. Það var Guðni Bergsson sem nú vill verða formaður KSÍ aftur sem réði Arnar í störfin.
„Hann réð sig næstum því sjálfur, það varð honum að falli á endanum. Það var enginn sátt með að hann væri þarna,“ sagði Kristján Óli um málið
Hörður Snævar benti þá á að ábyrgðin væri hjá Guðna. „Er það ekki meira hjá fyrrum formanni og næsta formanni, hann stóð vaktina,“ sagði Hörður.
Kristján segir að Guðni verði að svara fyrir þessi mál. „Hann þarf að svara fyrir þetta, ég held að það sé ekki eftirspurn núna eftir honum,“ sagði Kristján.
Umræðan í heild er í spilaranum.