Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að útvíkkun veikindaréttar þannig að hann nái til nánustu aðstandenda sé að finna í kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamninga.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Þar kemur fram að forystumenn stéttarfélaga meti það svo að skortur á úrræðum í þjónustu við aldraða og staðan á hjúkrunarheimilum með sínum löngu biðlistum eigi hlut að máli. Það hafi færst í vöxt að fólk þurfi að taka sér frí frá vinnu til að sinna öldruðum foreldrum sínum í heimahúsi.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, varpar frekara ljósi á þetta í samtali við Morgunblaðið.
„Við höfum séð dæmi um hjón sem eru komin í mikið umönnunarhlutverk gagnvart foreldrum beggja og annast þá allt upp í fjóra aldraða ástvini, sem eru á biðlistum og fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þetta tengist beint umræðunni í samfélaginu um slaka stöðu hjúkrunarheimila og kemur fram á öllum fundum hjá okkur.“
Ragnar Þór er sammála þessu og segir að hjúkrunarheimili séu yfirfull og þar sé aðeins pláss fyrir allra veikustu einstaklingana.
„Þetta er bara afleiðing af áratuga vanrækslu á þessum innviðum okkar sem voru byggðir hér upp af öflugu fólki en síðan hefur þessi hluti velferðarkerfisins verið algerlega vanræktur. Þetta bitnar á fjölskyldumeðlimum sem þurfa að fara í þessi umönnunarhlutverk.“