Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík tilkynnti í morgun á Facebook-síðu sinni að engin flugeldasala muni fara fram í ár á vegum sveitarinnar vegna hins gífurlega álags sem verið hefur á meðlimi hennar á þessu ári sem senn líður undir lok.
Í færslunni segir að flugeldasalan hafi verið „langstærsta fjáröflun“ Þorbjörns síðustu áratugi og algjör lykilþáttur í rekstri sveitarinnar. Stuttu yfirliti yfir þau miklu verkefni sem skollið hafa á sveitinni er síðan bætt við:
„Á seinni hluta ársins 2023 höfum við tekist á við stærstu gróðurelda á Íslandi, rýmingu Grindavíkur í kjölfar jarðskjálfta og svo tvö eldgos auk annarra hefðbundinna verkefna björgunarsveita. Við teljum það ekki forsvaranlegt að leggja meiri vinnu á okkar félagsmenn og tímabært að hvíla mannskapinn fyrir komandi verkefni, hver svo sem þau kunna að verða. Að baki eru þúsundir vinnustunda í þessum verkefnum við erfiðar og skrítnar aðstæður og verður hvíldin því kærkomin.“
Er þeim sem vilja styrkja Þorbjörn bent á bankareikning sveitarinnar:
Kennitala: 5912830229
Þau sem ætluðu sér að kaupa flugelda af Þorbirni eru hvött til að snúa sér til annarra björgunarsveita á Suðurnesjum:
Í lok færslunnar þakka félagar í Þorbirni fyrir stuðning sem sveitin hefur fengið frá fyrirtækjum og einstaklingum sem sagður er ómetanlegur.