fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Orðin og jörðin

Eyjan
Föstudaginn 22. desember 2023 07:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað felst í orðinu gos? Í jarðfræðilegum skilningi er það, að uppsöfnuð spenna og þrýstingur með ógnarkrafti losnar úr læðingi í kvikuhólfi þar til þolmörk þaksins bresta og upp úr gýs.  Nú vitum við að flæddi til dæmis yfir gamla þjóðleið, sumsé eldra landslag fer undir og verður síðar sem nýtt. Gos eru alltaf í fyrstu ógnvænleg og kalla á stórfelldar breytingar eins og þær sem við fylgjumst með núna en svo þegar fram líða stundir verður hið nýja landslag undirstaða nýrrar tilveru og nýs lífs á íslenskri jörð. Við þekkjum þetta enda hafa menn byggt þéttar byggðir á gömlum gossvæðum þar sem áður var engin byggð en þótti svo í tímans rás heppilegt byggðarland.

En hvað þýðir orðið gos þegar maður sjálfur gýs og geysar? Eru ekki töluverð líkindi við náttúruhamfarir?

Ég þekki persónuleg gos af eigin reynslu. Og þá er ég ekki að tala um hversdagsleg frekjuköst sem ég þekki líka í eigin ranni. Ég er að tala um persónuleg og alvarleg gos.

Ég fékk svo svakaleg skyndileg bræðisköst sem barn og ung manneskja að engum stóð á sama. Einstaka sinnum á fullorðinsárum hefur það líka gerst. Persónuleg gos eru andóf gegn einhverju sem er óásættanlegt og maður hefur bælt niður og allt í einu opnast kvikan og maður persónulega forgangsraðar skyndilega á nýjan hátt og krefst breytinga. Þar stjórnar hin innri kvika og spenna, ekki hugurinn og þakið brestur. Tilfinningalega eru slík gos að sama skapi og jarðfræðileg, í fyrstu skelfileg, en verða svo oft undirstaða persónulegs vaxtar og rýmis til að öðlast nýtt líf og velja sér nýja braut.

Ekki vanmeta gos. Og allra síst ykkar eigin. Gos eru bara hluti af hringrás lífs á jörðinni. Eyðilegging og dauði sem leggur grundvöll að vexti og nýju lífi. Maðurinn er hluti af náttúrunni sem lifir á jörðinni og hagar sér eins og jörðin, móðirin sjálf á stundum.

Ég hef alltaf haft gaman af orðum og stundum haft gaman af því að glugga í orðabækur til að kjamsa á einu og einu orði, grandskoða þau mér til skemmtunar og hugsanlega bæta orðaforða minn í leiðinni. Það er gaman að velta orðum fyrir sér. Hvað þýða þau? Hvaða merkingu hafa þau fyrir mann sjálfan, ef einhverja? Hvaða mátt bera þau með sér? Því orð hafa mátt.

Orð og hvernig við notum þau er allrar athygli vert. Hvaða orð notum við oft og hvers vegna? Hvernig tölum við í huganum til okkar sjálfra, með hvaða orðum, og hvaða áhrif hefur það á líðan okkar og tilvist.

Erum við sífellt að draga úr okkur kjarkinn með orðum á borð við, þetta verður aldrei, ég kann ekki, ég veit ekki, ég get ekki og brunum þannig stjórnlaust eftir niðurrifsgötunni? Erum við sífellt að tönnlast á þessum barlómi í heyranda hljóði við annað fólk?

Var okkur kennt þetta af einhverjum, erum við að fara með tuggur upphátt eða í huganum, sem aðrir hafa við okkur sagt eða er vandinn heimalagaður. Er slík orðanotkun líkleg til nokkurs annars en að viðhalda einskonar heimatilbúinni eymd, sjálfskapaðri hörmungarvist? Er ekki bara best að afleggja það með öllu og sjá hvort ekki birtir örlítið til?

Orð hafa mátt, því eflaust þekkja margir að setningar og jafnvel bara einstök orð sem hafa verið sögð við mann, geta setið í manni árum, jafnvel áratugum saman. Í kollinum ráfa þau um orðin sem voru sögð, gera vart við sig af og til, þar sem þau eru kannski notuð í allt öðru samhengi og valda manni skyndilega endurama. Nei sko, Þetta orð fæddist hér og nú. Orðið endurami!  Eitthvað sem veldur manni endurteknum ama. Orð fæðast eftir þörfum stundum.

En hvað á að gera við slík orð? Orð sem valda manni endurama? Fara til viðkomandi og segja: ,,Þú sagðir þetta eða hitt við mig“, til þess eins að komast að því að viðkomandi hefur að öllum líkindum enga minningu um að hafa einu sinni mælt þessi orð af vörum, hvað þá að viðkomandi hafi ætlað að særa þig helsári sem elti þig eins og draugur síðan?

Og hvers vegna þá að halda í slíkt? Vegna þess að þú varst auðmýktur eða niðurlægður á einhvern hátt, ekki satt, og þér er í mun að viðkomandi viti og skilji að þú ert stærri, meiri, verðugri en svo að svona sé til þín talað! Orð eru ansi afhjúpandi þegar að er gáð og segja okkur margt um okkur sjálf. Við álítum okkur kannski stór, mikilfengleg og hafa þann rétt, að aðrir sýni manni tilhlýðilega virðingu.

Af hverju? Af því að við erum aðalsborin? Hver á tilkall til einhvers?

Hvernig á að frelsa sig undan orðum? Auðmýktin er hugsanlega svarið hér, því ef maður lætur alfarið af þeirri hugsun að maður verðskuldi yfirleitt eitthvað, þá hafa orð annarra barasta engin áhrif. Í auðmýktinni, það er að segja ef maður getur hætt að taka sig hátíðlega, verða orð annarra fráleitt að áhrifa-, hvað þá áhrínisorðum, þau bara svífa út í loftið og maður er áfram frjáls.

Svo eru það orðin sem aldrei voru sögð, sem við söknum að hafa ekki heyrt og þráum innst inni að séu sögð við okkur. Og ef það er raunin, þá reynist oft erfitt að tileinka sér slík orð, hvað þá segja þau við aðra. Erum við þá að neita öðrum um það sem við fórum á mis við sjálf? Hvaða vitleysa er það? Hvers vegna að vera svo samansaumaður? Það er ekki eins og það fuðri upp í manni tungan við það að vera notalegur við annað fólk. Að temja sér að segja oftar já, en nei, er ágætis upphafspunktur. Það er ótrúlegt hvað lífið færir manni, þegar nei verður já. Því duglegri sem maður er við að hvetja og gleðja aðra, því auðveldara verður það, því sá brunnur fyllist stanslaust þó úr honum sé tekið. Þá, og þetta er svo merkilegt, eins og fyrir galdur umbunar heimurinn manni, alveg án þess að maður hafi í raun nokkuð fyrir því.

Sumir nota orðið, að verðlauna, mjög mikið og verðlauna sjálfa sig í tíma og ótíma. Margir verðlauna sig með því til dæmis að borða og drekka óhóflega mikið eða að eyða um efni fram. Allt þetta hef ég gerst sek um sjálf, með misgóðum afleiðingum. Ég hef til dæmis verðlaunað mig svo mikið að ég hef þurft að hætta keppni. En hvaða verðlaun á maður skilið og fyrir hvað eiginlega? Að vera til?

Maður hugsar, ég hef svo sannarlega unnið fyrir þessu eða ég hef haft það svo skítt að ég verðskulda umbun fyrir. Af hverju? Af því að maður er rauðhærður, ríkur, ungur, vinnusamur, lágvaxinn eða úr sveit? Verðskuldar nokkur yfirleitt eitthvað?

Lífið umbunar manni oft fyrir það eitt að vera til, maður finnur það, þegar maður sér börnin sín kát, þegar maður sér eitthvað fallegt, þegar maður hlær með góðum vinum, létti þegar stjórnlausum gosum lýkur.

Jarðhræringar og gos minna okkur á að ekkert vald höfum við gegn jörðinni. Gos haga sér bara eins og þau haga sér, alveg án nokkurs tillits til eigna, þarfa eða vilja mannsins. Þannig sýnir jörðin okkur að hennar vilji er allsráðandi og við, manneskjurnar, jörðinni algjörlega óviðkomandi.

Við erum hér aðeins gestir og lútum reglum gestgjafans. Í valdaleysi okkar getum við, óháð valdi jarðar, hins vegar velt vandlega fyrir okkur þeim orðum sem við notum, oft og sjaldan. Hvað býr í orðum? Getum við hugsanlega valið þau af meiri kostgæfni okkur og öðrum til vaxtar, framdráttar og gæfu. Sagt oftar, já, frekar en nei, og séð hvað það færir okkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim