fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fréttir

Tætir í sig afsökunarbeiðni vegna séra Friðriks – „Þetta er vægast sagt ófaglegt“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. desember 2023 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður, segist tilbúinn að taka að sér að verða málsvari séra Friðriks Friðrikssonar án endurgjalds.

Hann kveðst mjög ósáttur við afsökunarbeiðni KFUM og KFUK sem birtist í gær þar sem þolendur séra Friðriks voru beðnir afsökunar á kynferðislegri áreitni eða ofbeldi sem hann hefur verið sakaður um.

Í auglýsingunni kom fram að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að séra Friðrik, sem stofnaði KFUM og KFUK, hafi í skjóli virðingarstöðu sinnar farið yfir mörk í samskiptum við drengi og áreitt þá kynferðislega. Málið vakti talsverða athygli í gær og ákvað til dæmis stjórn Vals að taka niður styttu af séra Friðriki.

Ófaglegt, segir lögmaðurinn

Jón gerði málið að umtalsefni á heimasíðu sinni í gærkvöldi eftir að hafa fylgst með Kastljósi þar sem farið var yfir málið. Jón segir að athyglisvert hafi verið að fylgjast með á hvaða grundvelli niðurstaða stjórnar KFUM og K var grunduð.

„Tveir einstaklingar voru fengnir, til að fara yfir einhverjar ekki er vitað hvað margar meintar ávirðingar í garð sr. Friðriks, sem auglýst hafði verið eftir, það var nú öll rannsóknin,“ segir hann en Bjarni Karlsson prestur og Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi voru fengin til að taka á móti sögum um kynferðislega áreitni og ofbeldi séra Friðriks.

Jón setur spurningarmerki við það hvort Bjarni og Sigrún geti talist hlutlægir dómarar í málinu.

„Þetta er vægast sagt ófaglegt. Þá var hafnað að gefa upp fjölda þeirra sem hefðu haft samband eða með hvaða hætti þeir voru spurðir og gengið úr skugga um aðkomu viðkomandi. Þó var upplýst að þetta hefðu almennt ekki verið meintir þolendur heldur einhverjir aðrir m.a. afkomendur fyrir þeirra hönd. Einnig var vísað til ummæla Drífu Snædal um að þetta hafi verið altalað um miðja síðustu [öld]. Ummæli sem eru algjörlega úr lausu lofti gripin og röng. Allt er þetta einkar ófaglegt og andstætt eðlilegri nálgun að máli sem þessu.“

Saklaus uns sekt er sönnuð

Jón minnir á að við búum í réttarríki þar sem mannréttindalög gilda. Það sé réttur þess sem sakaður er að fá að halda uppi vörnum, sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali og þá sé kveðið á um að sakaður maður fái að spyrja vitni eða láta spyrja vtni. Loks sé maður talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð.

„Sr. Friðrik var ekki skipaður verjandi eða talsmaður, sem ætti þess kost að spyrja meinta þolendur og aðra sem að málinu komu. Í þessum hráskinnaleik var enginn sem gætti hagsmuna og mannorðs sr. Friðriks. Af ummælum í Kastljósi er ljóst, að ekki var fylgt reglum réttarríkisins við rannsókn eða niðurstöðu í málinu. Því miður þeim merka félagsskap KFUM og K til skammar og það finnst mér sárara en tárum taki.“

Jón segir að aldrei megi bregðast grunnreglum réttarríkisins og dæma fólk hvort sem það er lífs eða liðið. Nefnir hann meðal annars mál Edwards Heath, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, sem var sakaður um barnaníð eftir andlát sitt. Rannsókn málsins var hætt þar sem ekki voru talin næg sönnunargögn fyrir hendi.

„Við skulum dæma réttláta dóma grundaða á því að aðferðarfræði réttarríkisins sé beitt, þannig að sakaðar maður hvort heldur hann er lífs eða liðinn fái notið þeirra mannréttinda sem mannréttindasamþykkt Sameinuðu þjóðanna og íslensk lög um mannréttindi kveða á um. Þegar sérstaklega er auglýst eftir fórnarlömbum í svona máli verður auk heldur að hafa sérstaka gát en hrapa ekki að niðurstöðu svo sem gert var.“

Til í að vinna launalaust

Jón segist að lokum vera tilbúinn að taka að sér að verða málsvari séra Friðriks.

„Þar sem ekki var farið að lögum við þessa rannsókn um meint atferli sakaðs manns og mannréttindi hans og/eða minningar hans ekki gætt, verður að gera þá kröfu, að fram fari fullnægjandi skoðun og málsmeðferð í málinu og sr. Friðrik verði skipaður hæfur málsvari eða verjandi svo lágmarks mannréttinda hans verði gætt. Ég er tilbúinn til að taka þau störf að mér með glöðu geði KFUM og K og öðrum að kostnaðarlausu. Með sama hætti ætti stjórn Vals að draga til baka ákvörðun um að taka niður styttuna af sr. Friðrik Friðrikssyni og halda uppteknum hætti hvað varðar að heiðra minningu hans.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015