Inga Sæland formaður Flokks fólksins furðar sig á flokkun sorpsins sem til fellur á heimili hennar. Sérstaklega þegar kemur að samsettum umbúðum eins og mörg matvara kemur í, sem dæmi þar sem er plast og pappír í samsettum umbúðum og taka þarf umbúðirnar í sundur, eftir að hafa skolað þær vel og vandlega, til að geta nú sett þær í sitt hvora tunnuna.
Inga er alls ekki sú eina sem veltir þessu fyrir sér, mögulega daglega. Sorpflokkunarkvíði var það ekki orð sem var komið í almenna notkun?
„Jæja þá er það sorpflokkunarstöð Ingu. Hér snýst maður í hringi og veltir vöngum yfir allri þessari ótrúlegu mótsögn. Plast og pappír settur saman í einu og sömu umbúðir, hvað er það ? Eigum við að standa í því að reyna að rífa þetta í sundur til að rétt sé rétt ?“ segir Inga hress að vanda í færslu á Facebook.
Máli sínu til sönnunar birtir hún nokkrar myndir.
„Smá sýnishorn. Það er þetta með smjörvadósina, hm.. pappi + plast og ekkert grín að slíta það frá svo vel sé. Svo er það bakaríið, hvað með þetta plast sem er límt í pappaöskjuna? Ég má auðvitað ekki fara frá rauðvínskútnum sem er gjótharður pappakassi með plasthaldi og innan í er þessi líka fíni plastpoki sem þarf jú ekki að slíta í sundur en spurning að þeir setji þetta rauðvín í bréfpoka það myndi virka álíka vel og matarleifarnar í bréfið sem okkur er ætlað að setja þær í. Ég gæti auðvitað líka sett inn mynd af plastbrúsunum undan öllum góðu E. Finnson sósunum. Spurning að þeir setji þær í bréfpoka. Hér sitja lítil börn með kókómjólkurfernu og drekka með papparöri sem oftar en ekki safnast upp í góminn á þeim og ég veit um nokkur tilvik þar sem hreinlega hefur staðið í barninu. Hrikalega er ég orðin pirruð á öllu þessu kjaftæði.“
Inga biður vini sína að afsaka en hún hafi „lengi verið að velta vöngum yfir öllum þessum tvískinnungi og ætla að halda því áfram og koma með svona eitt og annað og bera undir ykkur hér.
Ein í jólastuði og djúpum þankagangi.“