Margir lesendur kannast án efa við kvikmyndina Sound of Music sem á íslensku var kölluð Tónaflóð. Það sem kannski ekki allir eru meðvitaðir um er sú staðreynd að myndin er byggð á sannri sögu en þó leyfðu höfundar hennar sér nokkurt skáldaleyfi.
Sound of Music, sem var frumsýnd 1965, byggir á samnefndum söngleik eftir Richard Rodgers og Oscar Hammerstein og fjallar um austurrísku nunnuna Maríu sem er send á heimili baróns nokkurs, á fjórða áratug síðustu aldar, til að gæta barna hans, sem alls voru sjö, og vera kennari þeirra. Baróninn, sem er ekkill, og nunnan enda á því að kvænast og hún tekur eftirnafn hans og verður Maria Von Trapp. Tónlist gegnir stóru hlutverki í lífi fjölskyldunnar og hún ferðast um Austurríki og raunar víðar og heldur tónleika.
Söngleikurinn var frumsýndur á Broadway 1959 og sló rækilega í gegn eins og kvikmyndin.
Maria Von Trapp var hins vegar ekki hugarfóstur höfunda söngleiksins eins og sum kynnu að halda heldur var hún sannarlega raunveruleg.
Eins og greint var frá í tímariti Smithsonian-stofnunarinnar byggði söngleikurinn á sjálfsævisögu hennar frá 1949 sem bar á ensku titilinn The Story of The Trapp Family Singers (Saga hinnar syngjandi Trapp fjölskyldu).
Í bókinni greinir Maria, sem hét upphaflega Maria Augusta Kutschera, frá því að hún hafi verið munaðarlaus en alist upp hjá forráðamanni sem henni var úthlutað af yfirvöldum. Þegar hún var orðin ung kona hélt hún í nunnuklaustur í þeim tilgangi að verða nunna en hún var ekki búin að vinna nauðsynleg heit þegar abbadísinn sendi hana á heimili barónsins Georg Von Trapp. Það var í þeim tilgangi að gerast kennslukona eins af börnum hans en í kvikmyndinni og söngleiknum gerðist hún kennslukona allra barna barónsins.
Baróninn hafði átt glæstan feril í austurríska hernum og var heiðraður fyrir frammistöðu sína sem yfirmaður kafbáts í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar Maria kom til sögunnar var hann hins vegar farinn á eftirlaun og eiginkona hans og móðir barnanna sjö var látin. Unga konan var ekki lengi að vinna hugi og hjörtu fjölskyldunnar. Georg lagði til að þau myndu gifta sig en Maria var ekki alveg viss um að hún ætti að gefa nunnulífið upp á bátinn.
Ástin á Von-Trapp fjölskyldunni hafði hins vegar betur og Georg og Maria giftust 1927 en ekki 1938 eins og í kvikmyndinni og söngleiknum.
Þegar komið var fram á miðjan fjórða áratuginn fór fjölskyldan að syngja, einkum þýska og trúarlega tónlist undir handleiðslu prestsins Franz Wasner sem starfaði næstu árin með fjölskyldunni. Fjölskyldan gerði á endanum sönginn að atvinnu sinni og árið 1937 fór hún í tónleikaferð um Evrópu undir nafninu Kór Trapp fjölskyldunnar.
Eins og í myndinni og söngleiknum flúði fjölskyldan Austurríki 1938 þegar landið var hertekið af Þýskalandi sem þá var í heljargreipum nasista. Fjölskyldan hafði ekki áhuga á að lifa undir slíkri ógnarstjórn og vildi halda áfram að syngja. Hún settist að í Bandaríkjunum og hélt sína fyrstu stóru tónleika í New York í desember þetta ár.
Frægð fjölskyldunnar fór sívaxandi og hún ferðaðist um heiminn og hélt tónleika allt fram til 1955. Maria Von Trapp fékk ekki stóran hluta af þeim gróða sem kvikmyndin heimsfræga um líf hennar skilaði. Hún taldi þó að myndin myndi hjálpa fólki við að öðlast trú á Guð að nýju og breiða von út um heimsbyggðina. Þetta þótti henni afar mikilvægt.
Í myndinni fer lítið fyrir tónlist í lífi Von Trapp fjölskyldunnar þar til Maria kemur inn í líf þeirra. Þetta er hins vegar ekki í samræmi við veruleikann. Fjölskyldan hafði þegar yndi af tónlist og því að syngja áður en Maria bættist í hópinn.
Ólíkt myndinni og söngleiknum þá var Georg Von Trapp alls ekki kaldur og fjarlægur faðir þegar Maria kom fyrst inn á heimilið. Hann var blíður og góður við börnin sín og fannst fátt skemmtilegra að syngja með þeim og öðrum fjölskyldumeðlimum. Í myndinni og sviðsverkinu blíðkast hann hins vegar vegna áhrifa Mariu. Þetta þótti betra fyrir söguna sem slíka en fjölskyldan var ekki sátt við þessa persónulýsingu á Georg.
Kvikmyndin endar á dramatískum flótta fjölskyldunnar þar sem hún gengur yfir alpana frá Austurríki til Sviss. Í raunveruleikanum var þetta ekki alveg svona þegar fjölskyldan yfirgaf Austurríki. Ein af dætrunum sagði síðar:
„Við sögðum fólki að við værum að fara til Ameríku að syngja en við gengum ekki yfir fjöll með farangurinn okkar. Við stigum upp í lest og létum á engu bera.“
Mesta skáldaleyfið sem höfundar söngleiksins og kvikmyndarinnar tóku sér varðaði líklega Maria Von Trapp sjálfa. Hún var ekki alveg alltaf sú ljúfa kona sem birtist á hvíta tjaldinu og skeytti aldrei skapi. Hin raunverulega Maria Von Trapp átti það til að missa algjörlega stjórn á skapi sínu og þá um leið öskra, kasta hlutum og skella hurðum. Að þessum reiðiköstum loknum féll þó allt í ljúfa löð hjá henni en fjölskyldunni fannst þó erfiðara að jafna sig eftir þau, ekki síst eiginmanninum Georg.
Ef Maria Von Trapp væri á lífi í dag hefði hún kannski fengið einhvers konar greiningu.
Hér að neðan má sjá stutt myndband af Maria Von Trapp og Julie Andrews, sem lék hana í kvikmyndinni, jóðla saman.