Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United, Tottenham, Fulham og fleiri liða gaf athyglisvert svar er hann var beðinn um að bera sig saman við leikmann sem nú spilar í ensku úrvalsdeildinni.
Búlgarinn átti frábæran feril og vann til að mynda gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2010-2011. Þá skoraði hann 20 mörk og United varð Englandsmeistari í nítjánda sinn.
Berbatov var beðinn um að nefna leikmann sem nú spilar í ensku úrvalsdeildinni sem er svipaður og Berbatov var.
„Mér líkar ekki að bera mog saman við einhvern en sá sem kemur upp er Kai Havertz,“ sagði Berbatov.
„Hvernig hann hreyfir sig á vellinum, fylgist með og tekur sinn tíma.“
Havertz gekk í sumar óvænt í raðir Arsenal frá Chelsea á 65 milljónir punda og eftir erfiða byrjun hefur hann unnið hressilega á. Þjóðverjinn er til að mynda með fjögur mörk í síðustu sjö leikjum.