Veitingastaðurinn Sjáland sem rekinn var við sjávarsíðuna í Garðabæ við miklar vinsældir gæti orðið að næsta útibúi líkamsræktarstöðvanna World Class, það er ef eigendurnir Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir fá leyfi til að stækka fasteignina.
Innherji greinir frá að World Class er komin með samþykkt kauptilboð í fasteignina, en tilboðið er með fyrirvara um að byggingarleyfi fáist til að stækka fasteignina umtalsvert. Hjónin segja staðsetningu húsnæðisins algeran gimstein fyrir líkamsræktarstöð.
Húsnæðið er í eigu Arnarnesvogs ehf. sem leigði veitingareksturinn til Gourmet ehf., sem var í eigu Stefáns Magnússonar sem kom einnig að rekstri Reykjavík Meat og Mathúsi Garðabæjar. Gourmet ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun október. Veitingastaðnum var lokað 2. október.