Ljóst er að margir hugsa hlýlega til Íslendinga – og kannski helst Grindvíkinga – á þessum tímum en það má meðal annars lesa í athugasemdakerfum erlendra fréttamiðla.
Á vef Daily Mail er til dæmis að finna frétt þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort eldgosið muni hafa áhrif á flugsamgöngur. Sú athugasemd sem fengið hefur flest „læk“ er svona í lauslegri þýðingu:
„Ég elska hvað íslenska þjóðin er afslöppuð í þessum aðstæðum. Á sama tíma er breska pressan að fara af límingunum til að skapa glundroða. En það er það sem hún gerir best.“
Þá er önnur frétt á sama vef þar sem fjallað er um spennufíkla sem reyndu að virða fyrir sér gosið í gærkvöldi. Þar má finna margar góðar kveðjur til Íslendinga.
„Guði sé lof að fólk gat komið sér í burtu í tæka tíð,“ sagði einn á meðan annar bætti við: „Ég var þarna í mars. Fallegur staður, fallegt fólk og ég vona að allt fari vel.“ Þá sagði annar: „Guð blessi ykkur, Íslendingar. Passið upp á ykkur.“
Þá talaði einn sérstaklega um Grindavík enda á hann góðar minningar þaðan.
„Ég vona að eldgosið komist ekki að Grindavík og heimilum fólks þar. Ég var þar í sumar og fólkið er svo almennilegt. Það er synd að horfa upp á þetta gerast núna enda vonuðu margir að ekkert meira myndi gerast eftir jarðskjálftana.“
Á Reddit hafa margir einnig tjáð sig um atburðina. „Ég dvaldi einu sinni nokkrar nætur í Grindavík. Þetta er fallegur fiskveiðibær og ég vona innilega að allt fari vel fyrir íbúa þar.“
Í athugasemdakerfi á Facebook-síðu Verdens Gang í Noregi má meðal annars finna hlýjar kveðjur. „Við biðjum fyrir Íslandi,“ segir Astrid Berntsen.