Hertogaynjan af Wales, Kate Middleton deildi á mánudag fjölskyldumynd af henni sitjandi við jólamatarborð árið 1983, aðeins nokkrum vikum áður en hún varð tveggja ára, þann 9. janúar 1984.
Á myndinni sést Katrín klæðast dökkri peysu og bláum og hvítum kjól ásamt litríku perluhálsmeni, og má sjá að hún og yngri sonur hennar, Lúðvík prins sem er fimm ára, eru nauðalík og sami grallarasvipurinn á Katrínu og sonur hennar er orðinn þekktur og elskaður fyrir. Kveikt er á kertum á matarborðinu og fyrir aftan Katrínu má sjá greni og skreytingar. Svo virðist sem hún sé nýlega búin með jólagrautinn eða jafnvel eftirréttinn.
View this post on Instagram
Katrín deildi myndinni á samfélagsmiðlum sem hluta af herferð sinni, Shaping Us, sem ætlað er að auka meðvitund um þarfir barna yngri en 5 ára og fólksins sem annast þau. Herferðin miðar að því að sameina ljósmæður, leikskólakennara, fræðimenn og þroskasérfræðinga til að auka þekkingu og skilning á því hversu mikilvæg fyrstu fimm árin eru.
Herferðin er tæplega ársgömul og var einnig innblásturinn á bak við árlega jólatónleika Katrínar, en þeir voru haldnir í Westminster Abbey fyrr í mánuðinum. Tónleikarnir verða sýndir í bresku sjónvarpi á aðfangadagskvöld. Í aðdraganda sýningarinnar í sjónvarpi og til að minna á herferðina, hefur Katrín beðið fólk um að fylgja hennar fordæmi og deila myndum frá sínum fyrstu jólum.