Ása Guðbjörg Ellerup, sem er gift meinta raðmorðingjanum Rex Heuermann, hefur gert samning við streymiveitu NBC, Peacock, um gerð heimildaþátta. Tökulið hefur fylgt henni eftir síðustu vikur, en í þáttunum er fjallað um mál ákæruvaldsins í New York gegn Heuermenn hvað varðar alræmdu Gilgo-strandar morðin. Samningurinn sem Ása gerði mun hljóða upp á um 140 milljónir, sem þykir nokkuð góð búbót.
Eftir að samningur Ásu Guðbjargar við streymisveituna var opinberaður má segja að allt hafi farið á annan endann í New York. Fjölskyldum þeirra kvenna sem fundust látnar við Gilgo-ströndina er gróflega misboðið og hafa kallað samninginn hreina illsku sem sé komi gríðarlega illa við aðstandendur. Ljóst sé að með þáttunum eigi að breyta hrottalegum harmleik í skemmtiefni og það sé til þess fallið að þvinga fjölskyldur hinna látni, sem eiga þegar um sárt að binda, til að ganga í gegnum enn eitt áfallið.
Nú er svo komið að reiði aðstandenda hefur náð eyrum löggjafans þarna úti. Tvö frumvörp hafa verið lögð fram þar sem lagt er til að lagabálki sem almennt kallast lög sonar Sam, verði uppfærð svo með þeim sé hægt að fyrirbyggja að fjölskyldur sakborninga sem grunaðir eru um voðaverk, geti notað aðstæður til persónulegs gróða. Verði þessi frumvörp að lögum mun breytingin umsvifalaust taka gildi og þar með stofna samningi Ásu Guðbjargar í hættu.
Áður en lengra er haldið er rétt að ítreka enn og aftur að Ása hefur engum sökum verið borin. Hún er ekki sakborningur í máli eiginmanns hennar, hún hefur farið fram á skilnað, og lögreglan í New York hefur skýrt komið á framfæri að Ása hafi hvorki vitað, né haft aðkomu, að þeim voðaverkum sem maður hennar er grunaður um að hafa framið.
„Fjármagnið sem er verið að henda í hana, á meðan fjölskyldur hinna látni fá ekkert, er hrottaleg,“ sagði þingmaðurinn Kevin Thomas í samtali við CBS. „Þau eru að misnota sársauka aðstandenda í gróðaskyni.“
Þingmaðurinn Fred Thiel Jr. sagði: „Hvers vegna ætti fjölskylda eða fyrrum maki að græða á þessum glæpum? Þetta er móðgun, að mínu mati, við fórnarlömbin.“
Lögmaðurinn John Ray, sem gætir hagsmuna fjölskyldna tveggja kvenna sem fundust látnar við Gilgo-ströndina, hefur fagnað frumvörpunum.
„Ása er náæta og hún nærist á þeim látnu með því að nota minningu þeirra og aðstæður, sem eiginmaðurinn hennar olli og hún gæti hafa átt hlut að,“ sagði Ray sem áður hefur farið hörðum orðum um Ásu og kveðst sannfærður um að hún sé enginn engill.
Lögmaður Ásu segir breytingatillögurnar þó sorglegar.
„Það er sorgardagur í Bandaríkjunum þegar fólk er tilbúið að troða stjórnarskrárvarinn rétt fótum til að koma sér í fjölmiðla. Næst munu þeir reyna að stjórna fjölmiðlaumfjöllum.“
Lagaprófessor við Harvard-háskóla, Fred Klein, hafði við þetta að bæta: „Fyrirhuguð lagabreytingin gæti verið í mótsögn við stjórnarskrá því henni er ætlað að gilda um fjölskyldumeðlimi, sem mögulega hafa ekkert á samviskunni.“
Talsmaður Peacock-veitunnar segir að hér sé um misskilning að ræða þar sem Ása sé ekki að fá borgað fyrir að taka þátt í heimildarþáttunum heldur hafi hún gert leyfissamning svo nota megi efni úr hennar einkaeigu. Peacock hafi leitað til fjölskyldna hinna látnu, en þau hafi engu svarað eða neitað þátttöku.
Sherra Gilbert, systir Shannan Gilbert sem fannst látin á Gilgo-ströndinni árið 2010, sagði á samfélagsmiðlum að hún væri vonsvikin, slegin, örg og full viðbjóði út af samningnum.
„Hvernig fjölmiðlar kaupa sögur til að þvinga fjölskyldur og þolendur raðmorðingja í gegnum enn eitt áfallið og til að misnota þau, er bara hrein illska.“
Sonur Sam löggjöfin var lögfest fyrir áratugum síðan en henni var ætlað að koma í veg fyrir að glæpamenn, svo sem morðinginn David Berkowitz, geti grætt af glæpum sínum. Síðar kom á daginn að löggjöfin stóðst ekki stjórnarskrá svo breyta þurfti innihaldi hennar. Nú felst í henni að upplýsa beri þolendur og fjölskyldur alvarlegra glæpa um útgáfusamninga og kvikmyndarétt af sögum þeirra svo þau geti leitað réttar síns og fengið lögbann eða hluta tekna.
Með þeirri breytingu sem nú hefur verið lögð til yrði gildissvið laganna rýmkað þannig að það næði eins til fjölskyldna sakborninga.