Þeir Valdimar Þór Ingimundarson, markvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjarnarson og Jón Guðni Fjólusson skrifuðu allir undir í Víkinni í dag. Valdimar kemur frá Sogndal í Noregi og Jón Guðni Hammarby í Svíþjóð, en Pálmi kemur frá Wolves þar sem hann lék með varaliðinu.
„Þetta hefur verið svolítið löng fæðing en svo sannarlega biðarinnar virði. Þetta eru þrír atvinnumenn að koma heim á mismunandi stigi á þeirra ferli. Þetta eru allt toppleikmenn. Ég segi bara gleðileg jól við Víkinga. Þetta er yfirlýsing fyrir klúbbinn og stuðningsmenn um hvað við ætlum okkur á næsta ári,“ segir Arnar í samtali við 433.is.
Arnar hefur mikið verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Norrköping í Svíþjóð en sem stendur veit hann ekki hvort hann verði hjá Víkingi á næsta ári eður ei.
„Staðan er bara þannig að ég hef tekið fjóra fundi með Norrköping. Það hefur verið gríðarlegur heiður og mikil reynsla. Þetta hefur verið mjög áhugavert ferli. Eitthvað sem maður hefur ekki tekið þátt í áður. En svo fer það bara eftir því hvað þeir velja. Ef þeir velja mig þurfa þeir að hafa samband við Víking og gera tilboð og þess háttar. Meðan svo er er ég bara þjálfari Víkings með tveggja ára samning og mjög ánægður hérna.“
En var þjálfarastaðan og óvissan í kringum hana eitthvað sem nýju mennirnir þrír veltu fyrir sér.
„Já, auðvitað. En hvað sem verður veit ég að það er mjög góður strúktúr hérna. Ég er til efs um, jafnvel eftir að hafa horft á þessa frábæru þætti um Skagamenn, að það hafi verið safnað saman jafnsterkum leikmönnum í sögu liðs á Íslandi. Strúktur og leikmannahópur, sama hvort ég verð áfram eða ekki, það eru hrikalega bjartir tímar framundan hjá Víkingum.“
Með því að fá Valdimar, Jón Guðna og Pálma er Víkingur að auka dýpt síns hóps til muna. Spilar þar inn í að liðið ætlar sér stóra hluti í Evrópukeppni á næsta ári, sem og hér heima.
„Það er hægt að reyna að stefna á að vinna báða titla heima og gera vel í Evrópu. Það er ekkert flóknara en það. Allt tal um þreytu og þess háttar, þetta snýst bara um allan pakkann, hvernig þú þjálfar liðið yfir veturinn, hvernig þú róterar því yfir sumartímann til að halda mönnum ferskum. Allt þarf þetta að hanga saman og ég held það hafi verið lokahnikkurinn í dag að fá þessa þrjá leikmenn. Ég veit að við erum með það góðan hóp að við getum gert vel á öllum vígstöðvum,“ segir Arnar.
Viðtalið í heild er í spilaranum hér ofar.