Guðmundur var í viðtali við RÚV um helgina þar sem hann fór yfir stöðuna tveimur árum eftir aðgerðina.
„Þetta er sennilega búið að vera erfiðasta árið frá upphafi aðgerðarinnar,“ segir hann en fyrr á þessu ári var greint frá því að líkami hans hafi byrjað að hafna höndunum og segir Guðmundur að það sé eitthvað sem læknum hefur ekki alveg tekist að stoppa.
„Ég byrjaði í nýrri meðferð fyrir tveimur vikum síðan. Þá dæla þeir öllu blóðinu úr mér og setja í skilvindu. Þar lýsa þeir svo hvítu blóðkornin með útfjólubláu ljósi og dæla því svo aftur inn í mig,“ sagði hann í viðtalinu sem birt er á vef RÚV og kveðst vongóður.
„Ég held að með þessu séum við að verða búin að koma í veg fyrir höfnunina.“
Guðmundur Felix segir að framfarir gangi hægar en áður en góðu fréttirnar séu að þær sjáist enn.
„Það eru smá framfarir en það er búið að hægjast mikið á framförum. Það var langmesti hraðinn á þessu fyrstu tvö árin,“ sagði hann.
Viðtalið við Guðmund á vef RÚV en þar talar hann einnig um jólin og það sem er fram undan hjá honum.