Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu í miðborginni í nótt vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. Þegar lögregla kom á vettvang kýldi farþeginn og sparkaði í lögreglumann. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangaklefa.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að eldur kom upp í íbúð miðsvæðis í borginni. Þegar lögregla kom á vettvang voru slökkviliðsmenn þar fyrir og voru byrjaðir að reykræsta. Eldur hafði kviknað út frá steikingarpönnu en lögreglumenn sáu brennt smjör á pönnunni.
Nokkuð var um slagsmál og skemmdarverk í miðborginni í nótt. Nokkuð var einnig um ölvunarakstur. Samtals gista 8 manns fangageymslur eftir nóttina.