Lionel Messi á svo sannarlega marga aðdáendur en hann hefur lengi verið einn allra besti leikmaður heims.
Messi er af mörgum talinn besti leikmaður allra tíma en hann vann HM í fyrsta sinn með Argentínu í Katar í fyrra.
Sex treyjur sem Messi klæddist á því móti hafa nú selst á uppboði fyrir milljarð íslenskra króna eða 7,8 milljónir bandaríkjadala.
Hver treyja seldist á um 1,6 milljónir bandaríkjadala en nafn kaupenda er að sjálfsögðu ekki gefið upp.
Messi er í dag staddur í Bandaríkjunum og leikur með Inter Miami en hann gerði garðinn frægan sem leikmaður Barcelona á sínum ferli.
Messi var valinn besti leikmaður heims fyrr á þessu ári og er það í áttunda sinn sem hann verður fyrir því vali.