Graeme Souness, goðsögn Liverpool, hefur greint frá ansi áhugaverðu samtali sem hann átti við milljarðamæringinn Jim Ratcliffe.
Ratcliffe er nú að tryggja sér 25 prósent hlut í Manchester United en hann íhugaði áður að festa kaup á Chelsea.
Ratcliffe leitaði til Souness á sínum tíma og vildi fá ráð varðandi kaup á Chelsea en ekkert varð úr þeim viðskiptum að lokum.
,,Við fáum okkur sæti og hann segist vera að íhuga að kaupa Chelsea. Hann spyr hvort að það sé sniðug ákvörðun og ég segi já, að þetta sé rétti tíminn. Ég hugsaði með mér að Roman Abramovich væri að fá nóg af verkefninu,“ sagði Souness.
,,Hann spurði mig hvað þetta myndi kosta og ég talaði um tvo milljarða. Hann vildi svo vita hvað það þyrfti til að gera það sama og Real Madrid hefur gert og sigrað Evrópu undanfarin ár. Við búum í bestu borg heims, London, af hverju er ekki lið hér sem getur gert það sama og Real Madrid?“
,,Ég svaraði að það væri ekki ómögulegt verkefni en að heppnin þyrfti að vera til staðar og miklir peningar. Hann spurði hversu miklir peningar og ég talaði um fjóra eða fimm milljarða á næstu tíu árum. Hann svaraði: ‘Væri það gaman?’
Ratcliffe ákvað að lokum að stíga til hliðar í viðræðum um kaup á Chelsea en mun hafa sitt að segja er hann eignast hlut í Manchester United.