Íþróttafréttamaðurinn Stefán Árni Pálsson er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar sem kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Á dögunum var sagt frá því í hlaðvarpinu Dr. Football að ósætti væri innan stjórnar HK með að hafa ekki fengið að ráða Ólaf Kristjánsson sem yfirmann knattspyrnumála.
Það stefndi í að Ólafur yrði ráðinn en hætt var við af fjárhagslegum ástæðum.
„Þessir stjórnarmenn voru með stór plön og fannst þeir sviknir að fá þetta ekki í gegn,“ sagði Hrafnkell um málið.
Stefán telur að HK myndi ekki veita af einstaklingi í þetta starf.
„Þetta er risastórt hverfi. Ég á strák í fótbolta og fylgist oft með þessum HK-gaurum í kringum hann. Þeir eru margir hverjir mjög góðir og þeir eru með mjög mörg lið. Þannig það væri alveg gott fyrir þetta félag að vera með yfirmann knattspyrnumála.“
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar og þátturinn í heild hér að neðan.