Íþróttafréttamaðurinn Stefán Árni Pálsson er gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar sem kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði fór undir hnífinn á dögunum en hann sagði í samtali við 433.is að í aðgerðinni hafi verið slípað örlítið af hælbeininu. Hann stefnir á að vera klár í byrjun nýs árs.
Aron hefur ekkert spilað með liði sínu í Katar, Al-Arabi, undanfarna mánuði og er talið að hann fari annað á láni í janúar. Talað hefur verið um lán til annars liðs í landinu.
Hrafnkell er hins vegar ekki eins viss og bendir á dvöl Arons hjá danska Íslendingafélaginu Lyngby fyrr í vetur þar sem Aron æfði.
„Ég held þetta sé flóknara dæmi þarna í Katar en menn halda,“ sagði Hrafnkell í þættinum.
„Hann var ekki hjá Lyngby um daginn bara til að æfa. Ég held þeir séu að skoða það að taka hann.“
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar og þátturinn í heild hér að neðan.