Allir þekkja það að liggja andvaka og ergja sig á hugsunum sem ganga eins og í þeytivinda í huganum. Í höfði margra er sístarfandi þvottavél á prógrammi sem aldrei skilar hreinum þvotti. Fátt má kalla meiri tímasóun. Hring eftir hring þvælast áhyggjurnar um heilabúið, engum til gagns en mörgum tiltalsverðs ama.
Heilinn, sem er svo duglegur að búa til sögur, spinnur jafnvel þræði sem hrollvekjuhöfundar mættu hreykja sér af. Fyrr en varir hefur angistin gripið mann heljartökum og rifið mann á fætur, þar sem gólfganga, jafn tilgangslítil, tekur við. Ef gólffjalir heimsins gætu talað!
Fólk með fjörugt ímyndunarafl er gjarnan þrælar slíks heilaspuna, ég er þar sjálf ágætt dæmi. Sérlega var þungt á því þegar ég var yngri og má segja að hamfarahyggja hafi um tíma flækt fyrir mér tilveruna.
Þannig marggreindi ég til dæmis sjálfa mig í huganum með illvíga og jafnvel banvæna sjúkdóma. Ég fór ekki hátt með þetta og kvaldist því talsvert í einsemd minni. Sennilega vissi ég innst inni að þetta var skuggahlið sjálfsvorkunnarinnar. Ég hlustaði samt ekkert á þá rödd heldur kvaddi fólk í huganum og fann mjög til með sjálfri mér að þurfa að yfirgefa jarðlífið, í blóma lífsins. Ég leitaði jafnvel til lækna, ekki vegna þess að ég væri ekki viss í minni sök, heldur frekar til að fá leyfisbréf til útfarar og greftrunar.
Mér fannst jafnan töluverð ástæða til að efast um visku lækna þegar ég var að þeirra mati stráheil og langt í frá dauðvona úr fátíðum sjúkdómum sem aðeins lifa nú í skáldsögum. Lestur góðra bóka getur því augljóslega verið skaðlegur, ólíkt því sem haldið hefur verið fram.
Var þessi sloppklæddi einstaklingur að villa á sér heimildir? Hvar var ég stödd? Hafði ég rambað inn á bílaverkstæði? Faldi sérfræðingsleyfisbréfið frá Uppsala sem hékk á veggnum almanak með sápulöðrandi berbrjósta konum? Hvernig gat viðkomandi farið með svona fleipur, ég sem vissi að það var úti um mig!
Ég hef heyrt að hugsanir af þessu tagi, það er að segja lífhræðsla, geti stafað af áföllum, hafi fólk til dæmis misst nákomna úr slíkum sjúkdómum en það heldur ekki vatni hvað mig varðar, því þessi dauða og veikindahræðsla var til í mér löngu fyrir þann tíma að ég lifði slíkt.
Og hvaða árátta var þetta þá eiginlega? Er það löngunin til að lifa sem brýst svona einkennilega fram? Getur verið að ástin á lífinu sem hefur alltaf verið mér eðlislæg hafi birst mér í andhverfu sinni á þennan hátt bara til að minna mig á að allt á sér aðra hlið? Að allt getur snúist á hvolf í einni hendingu? Að lífið er dýrmætt?
Kannski var þetta líka almættið að halda þessari þá ungu konu með báða fæturna á jörðinni svo hún tækist ekki á loft eins og flugdreki sem enginn heldur í? Yrði ekki eldinum að bráð. Er almættið ekki bara að stríða manni svolítið og hnippa í mann, þegar maður kannski lifir aðeins of hratt og fer ekki vel með sig?
Þegar ég var yngri manaði ég líka hugann upp í áflog við fólk sem ég taldi mig eiga eitthvað vantalað við. Ég var þá líklega sannfærð um að viðkomandi ætti eitthvað sökótt við mig og því þyrfti ég fyrir fram að bregðast við því og eyða í það töluverðum æfingum og þá auðvitað allra helst um nætur.
Þeir áhyggjufullu vita manna best, að um nætur, þegar þögnin og kyrrðin skapar kjöraðstæður fyrir skaðsamlegan heilaspuna, skal látið til skarar skríða og af fullum þunga.
Á slíkum stundum taldi ég auðvitað að ég hefði óumdeilanlega hæfileika til hugsunarlesturs, sem mér hefur síðan skilist að er ofmetin og tilgangslaus iðja. Í fyrsta lagi eru aðrir ekkert að pæla í manni og örugglega ekkert á við væni sýki manns sjálfs, þegar sjálfsmyndin er broguð.
Oftar en ekki reyndust því þessar fyrirframglímur fullkomin tímaeyðsla, en tíminn sem fór síðan í orkuuppbyggingu vegna svefnleysis þessa heilaspuna hins vegar ærinn.
Mér hefur lærst að við næturáhyggjum er ýmislegt hægt að gera. Í fyrsta lagi er að skoða, hvað raunverulega er á ferðinni. Sleppa því alfarið að draga ályktanir út í loftið. Ályktanir eru stórlega ofmetnar.
Ef áhyggjurnar eru eingöngu heilaspuni og ekki byggðar á neinu sem hald er í, það er að segja, þú hefur í reynd ekkert fyrir þér nema gjöfult ímyndunaraflið, þá er bara eitt að gera.
Að hita sér kakó, klappa fyrir sjálfum sér og sköpunargleðinni og fara aftur að sofa, fullur tilhlökkunar eftir næsta degi og næsta heimatilbúna skemmtiatriði.
Við raunverulegum áhyggjum sem banka uppá um nætur er aðeins tvennt í stöðunni. Get ég aðhafst eitthvað sem bætir líðan mín? Get ég ekkert gert? Sumsé, get ég eitthvað gert strax til að minnka þessar áhyggjur? Ef svarið er já, þá er að gera það sem gera þarf og ef það er tímafrekt, að einsetja sér að takast á við það næsta dag og eyða þar með ekki frekari tíma í það, að sinni.
Ef svarið er raunverulega nei, þá er að sama skapi, óþarfi að neita sér um dýrmætan nætursvefn. Ef maður getur ekkert gert, þá getur maður ekkert gert. Það er persónulegur sigur að horfast í augu við það þegar maður getur ekkert gert. Láta bara mjúkt magnleysið grípa sig og hræðast það ekki, því það er ávísun á ósigur að freista þess að sigra það, sem ekki verður sigrað.