Jan Aage Fjortoft, fyrrum knattspyrnumaður sem nú fjallar um leikinn, orðar Erik ten Hag, stjóra Manchester United, afar óvænt við stjórastarfið hjá Dortmund.
Ten Hag er undir pressu á Old Trafford eftir slæmt gengi á leiktíðinni. Liðið tapaði síðasta deildarleik gegn Bournemouth, 0-3 og tap gegn Bayern í vikunni varð til þess að liðið hafnaði á botni riðils síns í Meistaradeild Evrópu.
Hollendingurinn gæti því fengið að taka pokann sinn fljótlega.
„Klikkaðir orðrómar í Þýskalandi um að Ten Hag gæti tekið við Dortmund. Munið það að Sammer (ráðgjafi hjá Dortmund) hefur áður ráðið Ten Hag til starfa (fyrir Bayern). Sjáum hvað gerist á nýju ári,“ skrifar Fjortoft í grein í þýska blaðið BILD.
Það verður ansi áhugavert að sjá hvað gerist. Senn mun Sir Jim Ratcliffe eignast 25% hlut í United og taka yfir fótboltahlið félagsins. Það gæti orðið hans fyrsta verk að láta Ten Hag fara.