Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 2,7% á þriðja ársfjórðungi þessa árs.
Í tilkynningunni segir að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 8% á þriðja ársfjórðungi ársins í samanburði við sama tímabil síðasta árs samkvæmt bráðabirgðatölum. Ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,3 milljónum króna á ársfjórðungnum ( júlí, ágúst, september) og aukist um 4,8% frá sama tímabili í fyrra.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 2,7% á tímabilinu að teknu tilliti til verðlagsþróunar og mannfjöldaaukningar en vísitala neysluverðs hafi hækkað á sama tíma um 7,8% og mannfjöldi aukist um 3%.
Heildartekjur heimilanna hafi aukist um 13,1% á þriðja ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Sá liður sem vegi hvað þyngst í aukningu heildartekna séu launatekjur en þær hai aukist um 10,9% frá sama ársfjórðungi á síðasta ári. Áætlað sé að eignatekjur hafi aukist um 18,2% frá sama ársfjórðungi í fyrra og að vaxtatekjur hafi aukist um 47,4% á tímabilinu. Þá lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur aukist um 11,5%.
Heildargjöld heimilanna hafi aukist um 19,7% á þriðja ársfjórðungi 2023 samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Skattgreiðslur hafi aukist um 12,3%, tryggingagjöld um 7,7% og eignagjöld um 39,4%, þar af vaxtagjöld um 40,8% sem sé nokkuð minni hækkun en síðustu ársfjórðunga þar sem vaxtahækkanir hafi verið farnar að gera vart við sig á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.
Hagstofan tekur sérstaklega fram að um bráðabirgðaniðurstöður er að ræða. Endurskoðaðar niðurstöður verði birtar þegar fyrir liggi endanlegri upplýsingar, meðal annars úr skattframtölum fyrirtækja og einstaklinga.