Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, verður ráðinn næsti þjálfari Öster, en sparkspekingurinn Mikael Nikulásson segir frá þessu í Þungavigtinni.
Öster spilar í sænsku B-deildinni og var nálægt því að fara upp í ár undir stjórn Srdjan Tufegdzic, Túfa, sem var látinn fara eftir tímabil.
Jóhannes hefur undanfarið verið orðaður við stjórastarfið hjá Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, auk Arnars Gunnlaugssonar og Peter Wettergren aðstoðarþjálfara sænska landsliðsins.
„Jóhannes Karl Guðjónsson er næsti þjálfari Öster í Svíþjóð,“ segir Mikael í Þungavigtinni.
„Hann hættir hjá KSÍ,“ bætir hann við.
Ef þetta er satt aukast líkurnar á að Arnar taki við Norrköping en það virðist æ líklegra að Wettegren verði áfram hjá sænska knattspyrnusambandinu sem hefur boðið honum að taka við sem tæknilegur stjórnandi.