Pierre Van Hooijdonk fyrrum framherji hollenska landsliðsins telur engar líkur á því að kona geti stýrt knattspyrnuliði hjá körlum sem er í fremstu röð.
Mikil umræða hefur verið í gangi um konur í fótbolta og þá sérstaklega í sjónvarpi eftir að Joey Barton fór mikinn.
Barton sagðist ekki taka mark á konum sem sérfræðingum í sjónvarpi. Van Hooijdonk vildi ekki ræða það en fór í það að ræða þjálfara.
„Finnst ykkur þetta skrýtið? Fótboltaheimurinn er harður heimur,“ segir Van Hooijdonk.
„Ég get ekki ímyndað mér Sarina Wiegman (Þjálfara enska landsliðsins) fara inn í klefa með karlalið. Af hverju ekki? Ef þú hefur verið í búningsklefa þá skilur þú af hverju.“
„Þetta snýst um að hafa virðinguna sem leikmenn þurfa að bera fyrir þér. Ég er ekki að segja að þær fái ekki virðinguna en hún er minni en hjá körlum. Það er enginn spurning, þannig er þetta bara.“
Van Hooijdonk segir að kallað sé eftir breytingum í öllu í dag. „Það á að brjóta allt niður í dag, en að kona þjálfi sem dæmi í ensku úrvalsdeildinni. Þú áttar þig ekki á því hvað myndi gerast í öllum útileikjum og hvernig stuðningsmenn myndu haga sér.“