DV.is fór í loftið undir lok ársins 2007 og er í dag þriðji vinsælasti vefur landsins. Landslag internetsins var að mörgu leyti allt annað á þeim tíma en að sumu leyti svipað. DV leit athugaði hvað Íslendingar voru mest að vafra árið 2007.
Þegar 100 vinsælustu vefsíðurnar eru skoðaðar sést að 42 voru íslenskar en 58 erlendar. Af erlendu síðunum voru 9 pólskar síðuru, sem skýrist af fjölda pólskra innflytjenda sem hefur ekki farið minnkandi.
Athygli vekur hversu gríðarlega vinsælar bloggsíður voru á þessum árum sem og ýmsar torrent og skráarskiptasíður og hlekkja og spjallsíður. Samfélagsmiðlar voru ekki komnir inn með jafn miklum þunga og í dag. Í þessari umfjöllun eru síður ekki tvítaldar, svo sem Google.com og Google.is.
Þrjár vinsælustu vefsíðurnar voru hins vegar allar erlendar. Vinsælasta síðan var myndbandasíðan Youtube.com, þá kom leitarvélin Google.com og samfélagsmiðillinn Myspace.com þar á eftir, en hún hefur mátt muna sinn fífil fegurri í dag.
Aðrar vinsælustu síðurnar hjá Íslendingum voru leitarvélin Yahoo.com, ljósmyndavefurinn Flickr.com, alfræðiorðabókin Wikipedia.org, samfélagsmiðillinn Facebook.com og kvikmyndavefurinn IMDB.com.
BBC.co.uk var eina fréttasíðan á ensku sem komst á lista yfir 100 vinsælustu vefsíðurnar. Hins vegar komust fjórar klámsíður á hann. Metaroti.com, Youporn.com, Dump.com og Adultadworld.com. Einnig spjall og hlekkjasíðan 4chan.org sem innihélt mikið af vafasömu efni. Þá var komst stefnumótasíðan Adultfriendfinder.com á listann.
Það voru ekki aðeins íslenskar torrent og skráaskiptasíður sem Íslendingar heimsóttu. Rapidshare.com, Mininova.org, Thepiratebay.org, Megaupload.com og Isohunt.com eru á listanum. Einnig tölvuleikjasíður á borð við Gamespot.com, Trophymanager.com, Wowhead.com og IGN.com.
Þá vekur athygli að 9 af 100 vefsíðum á listanum eru pólskar. Sú vinsælasta Onet.pl sem er fréttasíða.