fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Lögreglumaður með áfallastreituröskun fær ekki bætur

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 13. desember 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli sem maður höfðaði gegn Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). Maðurinn hefur starfað sem lögreglumaður en glímdi við áfallastreituröskun eftir að hafa komið að máli í Árbæ árið 2013 sem endaði með því að maður, sem átti við geðræn vandamál að stríða, skaut á lögreglumenn. Að lokum skaut sérsveit ríkislögreglustjóra manninn til bana. Maðurinn fór fram á bætur úr slysatryggingu launþega frá VÍS vegna áfallastreituröskunar í kjölfar atburðarins. Málið endaði fyrir Hæstarétti sem í dag dæmdi tryggingafélaginu í vil og lögreglumaðurinn fær því engar bætur.

Í dómnum segir að manninn, sem fór fram á tæpar 2,5 milljónir króna auk vaxta, og VÍS hafi greint á um hvort slysatryggingin væri höfuðstólstrygging, með 10 ára fyrningarfresti, í skilningi laga um vátryggingarsamninga eða hvort fyrningarfrestur væri 4 ár eins og VÍS hélt fram.

Héraðsdómur dæmi VÍS til að greiða manninum bæturnar, árið 2021, þar sem um væri að ræða höfuðstólstryggingu með 10 ára fyrningarfresti. Landsréttur sneri dómnum hins vegar við og sagði um hefðbundna slysatryggingu að ræða með fjögurra ára fyrningarfresti. Var það niðurstaða réttarins að manninum hefði mátt vera ljóst þegar á árinu 2014 að atvikið hefði haft afleiðingar fyrir hann og því hafi fyrningarfrestur byrjað að líða í lok þess árs og því verið liðinn þegar málið var loks höfðað.

Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir þar sem það hefði fordæmisgildi fyrir fyrningu krafna á sviði vátrygginga.

Um málsatvik segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að í desember 2013 hafi maðurinn, ásamt fleiri lögreglumönnum, verið kallaður að fjölbýlishúsinu þar sem maðurinn sem skaut á þá bjó. Í fréttum á sínum tíma kom fram að það er í Árbæ í Reykjavík.

Maðurinn þurfti ásamt öðrum lögreglumönnum að leita skjóls undan skothríð mannsins. Var lögreglumönnunum verulega brugðið og óttuðust þeir um líf sitt.

Greindur 7 árum síðar

Maðurinn leitaði til sálfræðings ásamt öðrum lögreglumönnum eftir atvikið en andleg áhrif á hann vegna þess ágerðust. Hann sendi VÍS tilkynningu um tjón haustið 2016.

Manninum var vísað til sálfræðings sem sérhæfir sig í meðferð við áföllum. Sá sálfræðingur sagði hann uppfylla greiningarskilyrði fyrir miðlungseinkenni áfallastreituröskunar en hann fór aðeins í tvö viðtöl til þess sálfræðings sem sagði það ekki nægilegt fyrir formlegt mat.

Eftir bréfaskipti milli lögmanns mannsins og VÍS samþykkti tryggingafélagið í lok árs 2017 að bera ekki fyrir sig að bótakrafa mannsins væri fyrnd ef hún væri ekki þegar fyrnd samkvæmt lögum.

Maðurinn fór í tíu viðtöl til annars sálfræðings sem greindi hann með áfallastreituröskun árið 2020. Sat atvikið þá enn í manninum og hafði töluverð áhrif á hann í starfi og einkalífi. Meðferðin hjá sálfræðingnum bætti þó líðan hans og kemur það fram í dómnum að sálfræðingurinn hefði talið að bati hefði komið fram fyrr ef meðferð hefði hafist fyrr.

Maðurinn óskaði í kjölfarið eftir bótum frá VÍS, úr slysatryggingu launþega, sem hafnaði því á grundvelli þess að krafa mannsins væri fyrnd, 7 árum eftir að atvikið sem olli áfallastreituröskuninni átti sér stað.

Fyrir dómi hélt lögmaður mannsins því fram að slysatryggingin væri höfuðstólstrygging þar sem sérstakur höfuðstóll kæmi fram í vátryggingarskírteini. Hann hélt því einnig fram að fyrningarfrestur kröfunnar hafi ekki hafist fyrr en formleg greining sálfræðingsins lá fyrir. Lögmaðurinn minnti einnig á að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hefði komist að þeirri niðurstöðu að slysatrygging launþega væri höfuðstólstrygging.

VÍS sagði hins vegar að slysatrygging fæli aldrei í sér fyrirfram ákveðna upphæð heldur færi upphæðin eftir afleiðingum slyss. Þess vegna gæti hún ekki talist vera höfuðstólstrygging og væri því með fjögurra ára fyrningarfresti. Maðurinn hafi vitað þegar árið 2014 hverjar andlegar afleiðingar af því að skotið var á hann voru en ekki tilkynnt það til VÍS fyrr en 2016. Hann hafi verið seinn að leita sér aðstoðar sálfræðings og ekki haldið VÍS upplýstu um stöðu mála. Samþykki tryggingafélagsins, í lok árs 2017, að bera ekki fyrir sig fyrningu hefði byggt á því að krafan væri ekki þegar fyrnd samkvæmt lögum og að málinu yrði lokið árið 2018.

Lögreglumaðurinn hafi átt rétt á bótum

Er það niðurstaða Hæstaréttar að maðurinn hafi sannarlega átt rétt á greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega frá VÍS. Sú trygging geti hins vegar ekki talist vera höfuðstólstrygging þar sem upphæð sé ekki fyrir fram ákveðin heldur fari eftir atvikum og tjóni viðkomandi. Fyrningarfrestur kröfu mannsins sé því 4 ár.

Hæstiréttur segir gögn málsins hafa sýnt fram á að manninum hafi þegar árið 2014 orðið ljóst hverjar afleiðingar atvikisins sem um ræðir voru fyrir hann en þá hafi hann fundið fyrir einkennum áfallastreituröskunar. Manninum hafi farið að batna eftir sálfræðimeðferð 2020 en fram hefði komið að hefði meðferð hafist fyrr hefði það líka átt við um bata. Meðferðin hafi dregist á langinn af því maðurinn hafi látið hjá líða að leita sér aðstoðar.

Þar sem manninum hafi verið ljósar afleiðingar atviksins árið 2014 hafi fyrningarfrestur kröfunnar hafist þá og því hafi krafan verið fyrnd þegar maðurinn höfðaði mál á hendur VÍS árið 2021.

Er því niðurstaða Hæstaréttar að maðurinn eigi ekki lengur rétt á bótum úr slysatryggingu launþega.

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Pétur Jökull verður dreginn fyrir dóm í ágústmánuði

Pétur Jökull verður dreginn fyrir dóm í ágústmánuði
Fréttir
Í gær

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“

Trump í fyrsta viðtalinu eftir árásina – „Ég á að vera dauður“
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“

Safnað fyrir fjölskyldu Viðars – „Setti mig og börnin okkar alltaf í fyrsta sæti“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill