Verkföll og kjarabarátta flugumferðarstjóra er áberandi í umræðunni þessa daganna. Hafin eru verkföll sem hafa eðli máls samkvæmt miklar afleiðingar á samgöngur og hefur sögum farið um að flugumferðarstjórar séu á höttunum eftir töluverðum launahækkunum sem eru í litlum takti við það sem öðrum stendur til boða. Nokkuð hefur verið slúðrað um að stefnt sé að 25 prósenta hækkun, en formaður félags flugumferðarstjóra segir þó ekkert í því hæft.
Meðallaun stéttarinnar eru í hærri kantinum, eða vel á aðra milljón. Arnar Hjálmarsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra hefur þó bent á að sú tala gefi ekki raunhæfa mynd af kjörum stéttarinnar þar sem inn í henni eru greiðslur fyrir álag og yfirvinnu sem sé töluvert, enda um undirmannaðan hóp að ræða. Hafstofa Íslands segir að að heildarlaun hópsins séu að meðaltali um 1.584 þúsund á mánuði. Grunnlaun þar af 915 þúsund. Arnar vill þó meina að grunnlaun séu í raun undir 700 þúsund krónum.
Sitt sýnist þó hverjum og hefur það reitt margan til reiði að sjá stétta sem varla þarf að lepja dauðann úr skel, setja samfélagið á hliðina, krefjast óhóflegra launahækkunar, og einhvern veginn koma sér undan þeirri kröfu sem á íslenska launþega hefur almennt verið lögð, að krefjast ekki mikils á meðan verðbólgan er í hámæli. Daníel Hjörvar Guðmundsson er einn þeirra ósáttu, en hann segist sjálfur vera með töluvert lægri laun, en náði þó að skrapa saman fyrir ferð til Tenerife sem sé nú í uppnámi út af verkföllum. Hann skrifar í grein á Vísi:
„Flugumferðarstjórar virðast halda nú í einhvers konar krossferð. Hverrar markmið er að hækka launin sín úr magurri einni og hálfri milljón á mánuði, í skrilljón billjón trilljónir. Úr herbúðum flugumferðarstjóra streyma yfirlýsingar og þvertakanir en engar upplýsingar. Yfirlýsingarnar eru flestar ónákvæmar, margar villandi, sumar rangar, og ein rétt.“
Daníel segir galið að formaður félagsins, Arnar, haldi því fram að meðallaun komi kjarabaráttunni ekkert við. Honum sé þó vorkunn þar sem hann sé halda fram óverjandi málflutningi – að hálaunuð stétt eigi að hækka gífurlega mikið. Í raun hafi Arnar sent almenningi þau skilaboð að flugumferðarstjórar þurfi ekkert að hafa neina þörf á launahækkun. Raunin sé að þeir hafi rétt til að krefjast hennar og tól til að knýja hana fram og við það þurfi aðrir bara að sætta sig.
„Ekki nóg með að launakröfur flugumferðarstjóra virðast í engu samhengi við raunveruleikann og engan veginn til þess fallnar að tryggja mikilvægan stöðugleika, verja samkeppnishæfni og lífskjör í landinu, þá stilla þeir verkfalli sínu yfir þann tíma þegar fólk streymir ýmist til landsins eða úr því, til að halda hátíðleg jól með ástvinum sínum.
Að þeirri réttu. Formaður Félags flugumferðarstjóra hittir naglann á höfuðið í viðtali dagsins þar sem hann segir: „Ég held að almenningsálitið hafi aldrei verið með okkur.“
Almenningsálitið er í það minnsta ekki með ykkur núna, um það getum við verið sammála.“