New York Post fjallar um málið og segir að Xiong hafi ferðast til næststærstu borgar landsins, Medellín, þann 29. nóvember síðastliðinn og var markmiðið að eyða jólahátíðinni með fjölskyldu sinni sem er búsett þar.
Þann 10. desember átti hann stefnumót við konu sem hann kynntist á samfélagsmiðlum en áður en að því kom var honum rænt af vopnuðum mönnum sem kröfðust lausnargjalds fyrir hann.
Xiong hringdi í vin sinn að kvöld 10. desember og lýsti því að mennirnir vildu fá átta milljónir kólumbískra pesóa fyrir lausn hans, upphæð sem samsvarar um 350 þúsund krónum.
Nokkrum klukkustundum áður var lögregla kölluð að dvalarstað hans vegna konu sem var bera verðmæti út. Konan náðist ekki en grunur leikur á að þar hafi verið komin sama kona og hann ætlaði að hitta.
Xiong fannst svo látinn í gili skammt fyrir utan borgina en á líki hans voru meðal annars stungusár og áverkar eftir annars konar ofbeldi. Ekkert lausnargjald var greitt og segist lögregla skoða hvort hann hafi reynt að flýja úr haldi mannræningja sinna með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögregla hefur haft hendur í hári eins manns sem grunaður er um verknaðinn.
Xiong fæddist í Laos árið 1973 á meðan faðir hans starfaði þar í landi fyrir bandarísku leyniþjónustuna, CIA. Fjölskyldan flutti svo til Bandaríkjanna árið 1992 og hafði Xiong getið sér gott orð sem skemmtikraftur vestan hafs.