Einar segir að í dag hlýni og hláni víðast hvar á landinu og má búast við slagveðursrigningu í dag um sunnan- og vestanvert landið. Þessu mun ekki fylgja mjög hvass vindur nema austast á landinu.
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út vegna veðurs á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi og taka þær gildi í nótt.
Einar segir að lægðin sem kemur í nótt sé að dýpka á sunnanverðu Grænlandshafi. „Svo slengir hún inn svona élja- eða skúrahryðjubakka í nótt og það gerist tiltölulega snöggt,“ sagði hann. Það hvessir því talsvert af suðvestri í nótt og taka gulu viðvaranirnar til þess.
Einar segir að á sama tíma og þetta gerist muni kólna í lofti og má búast við éljum eða snjókomu á Hellisheiðinni til dæmis. Fyrst í stað verða skúrir og slydda á láglendi.
„Síðan gengur þessi lægðasnúður norður yfir landið og veðrið lagast síðan aftur þegar birtir, eða jafnvel fyrir birtingu. Þegar þetta gengur yfir þá kólnar heldur og þá fer að bera meira á éljum í föstu formi. Það getur farið að hvítna á láglendi þegar líður á daginn. Það mun snjóa og verða hvítt sunnan- og vestanlands,“ sagði Einar í Bítinu.
Aðspurður hvort við eigum von á mikilli snjókomu á höfuðborgarsvæðinu sagði Einar að þetta verði ekki mjög mikið. „Þetta gerist allt voðalega hratt. Þessi éljagangur hann er seinni partinn á morgun og heldur alveg áfram fram á föstudag og það verður vetrarlegt um að litast um sunnan- og vestanvert landið.“
Hann segir að á föstudag muni koma upp að landinu hraðskreið lægðabylgja og þá muni aftur hlána og snjó taka upp á láglendi. „Svo endar það aftur á snjóföl þannig að við erum komin í umhleypingaskeiðið,“ sagði Einar sem bætti við að veðrið ætti nú að róast um helgina. Það mun þó ekki vara mjög lengi því spár geri ráð fyrir rysjóttri tíð í næstu viku.
„Ég sé hér í spá sem kom í morgun að það er reiknað með mjög djúpri lægð í kringum vetrarsólstöður, 20. til 21 desember. En það er langt í það og með slíkum lægðum – ef þær eru djúpar – fylgir mikil úrkoma, mest rigning og slydda.“
Einar vildi ekki tjá sig mikið um jólaveðrið eða hvort það verði rauð jól. „Ég er ekkert að segja neitt um það. Það er langt þangað til og það á mjög mikið eftir að gerast. Ef menn eru að horfa á það sem er að gerast 24. og 25. desember þá getur brugðið til beggja vona í þessum umhleypingum,“ sagði hann og bætti við:
„Það eina sem spárnar gefa skýrt til kynna er það að í kjölfarið á þessari djúpu lægð í kringum vetrarsólstöðurnar – ef af henni verður – þá snýst í norðanátt um einhvern tíma með kólnandi veðri.“
Einar segir að þó að vetrarlegt verði um að litast á höfuðborgarsvæðinu síðar í vikunni eigi hann ekki von á erfiðri færð að sinni. Í borginni verði þetta „venjulega aðventuslabb“ og stundum einhver hálka en á fjallvegum og heiðum geti akstursskilyrði orðið krefjandi.