fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Andrés Ingi og Guðlaugur Þór tókust hart á um orkuskipti – „Við erum að reka ríkissjóð með halla“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 11. desember 2023 16:36

Nðurfelling ívilnana fyrir kaup á rafmagnsbílum og rafmagnshjólum er hitamál.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata og Guðlaugur Þór Þórðarson tókust hart á um loftslagsmál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi nú síðdegis. Andrés harmaði þá aðgerð að fella niður ívilnanir til rafbíla og rafhjólakaupa um áramótin.

Byrjaði Andrés á að bjóða ráðherrann velkomin heim aftur af loftslagsráðstefnunni í Dubai, þar sem íslenskir ráðamenn hefðu þó klappað sér fastar á öxl efni væri til. Tölurnar töluðu sínu máli um hversu hægt baráttan í loftslagsmálum væri að ganga.

„Þó hefur verið ein aðgerð sem einhverjum árangri hefur skilað, sú sem snertir orkuskipti í vegasamgöngum. Rafbílavæðingin hefur gengið betur á Íslandi en í flestum öðrum löndum þó hún hafi reyndar ekki skilað markmiðum um réttlát umskipti eins og best væri og því eðlilegt að breyta því kerfi. En sú aðferð sem valin er til að breyta því er kostuleg,“ sagði Andrés.

Þessi þáttur í loftslagsmálunum hefði verið í uppnámi síðan í sumar þegar tilkynnt var að ívilnanirnar yrðu afnumdar um áramót og „eitthvað annað“ tekið upp í staðinn. Það hafi komið í ljós fyrir stuttu, stuðningur í gegnum Orkusjóð.

„Markaðurinn hefur ekkert vitað hvernig ætti að bregðast við. Það sem er gert í leiðinni er að það er dregið úr stuðningi um 6,1 milljarð, þegar farið er úr ívilnunum í stuðning í gegnum Orkusjóð. En þeim sparnaði er stungið undan. Hann er ekki nýttur í aðrar loftslagsaðgerðir, honum er stungið beinustu leið í vasann á ríkissjóði,“ sagði Andrés og benti á að á sama tíma væri verið að fella niður stuðning við reiðhjól og rafmagnsreiðhjól.

„Þetta er sáralítil upphæð í stóra samhenginu en gríðarlega skilvirk,“ sagði hann og benti á að almenningur hefði keypt 7 þúsund rafmagnsreiðhjól á síðasta ári, fleiri en rafmagnsbíla.

 

Ekki bannað að spara

Þetta fór öfugt ofan í Guðlaug Þór sem svaraði með miklum þjósti.

„Þessi ágæti þingmaður, sem talar alla jafna mikið um loftslagsaðgerðir, hann reyndi að koma í veg fyrir það að stærsta loftslagsaðgerðin yrði að lögum. Það er bara þannig. Það er kominn tími til að þeir sem tala fyrir loftslagsmálum átti sig út á hvað það gengur,“ sagði Guðlaugur og hækkaði sífellt róminn. „Það gengur út á það að taka út jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn. Það eru allir í Dubai sem átta sig á því. En hér kemur háttvirtur þingmaður ásamt háttvirtum þingmönnum Pírata og Samfylkingar, sem alla jafna tala um mikilvægi þess að fara í loftslagsaðgerðir. En þegar koma stórar loftslagsaðgerðir þá segja þau: Nei! Nei! Nei! Við segjum nei!“

Gagnrýndi hann það einnig að það sé talað um að stinga undan ef það næst sparnaður í ríkissjóði.

„Það er ótrúlegt að kjörinn fulltrúi skuli ekki átta sig á því að við erum að reka ríkissjóð með halla. Hvað þýðir það? Við erum að senda reikning á börnin okkar,“ sagði Guðlaugur og var nú næstum farinn að æpa. „Það er ekki bannað að spara í ríkisrekstri. Það er ekki bannað. Og þá lá alveg fyrir að það sem við erum að gera, hvort það er rafbílavæðing, eða rafhjól eða hvað það nú er, allt er þetta tímabundið. Það verður líka að vera sjálfbærni í efnahagsmálum.“

 

Bjargar varla ríkissjóði

Andrés kom aftur og ítrekaði spurningu um hvers vegna væri verið að draga úr þessum stuðningi við orkuskipti í vegasamgöngum. Því hefði hann gleymt í æsingnum.

Benti hann á að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum hafi síðast verið uppfærð árið 2020, á grundvelli eldri skuldbindinga ríkisins og í tíð fyrri ríkisstjórnar.

„Handbókin sem hæstvirtur ráðherra er að spila eftir er úrelt. En þar að auki er hann hættur að spila eftir henni vegna þess að ein af aðgerðunum í þeirri áætlun var einmitt að styðja við virka samgöngumáta,“ sagði Andrés.

Gaf hann lítið fyrir að niðurfelling rafmagnshjóla væri gerð til að jafna stöðu ríkissjóðs. Þetta væru aðeins 350 milljón króna ívilnanir.

„Bjargar það ríkissjóði? Á móti er hæstvirtur ráðherra að skera niður framlag til orkuskipta í vegasamgöngum um 6,1 milljarð og leggja notkunargjöld á rafbíla um 7,5 milljarða,“ sagði hann og hækkaði einnig róminn. Það sé líka eitthvað sem næstu kynslóðir þurfa að borga.

 

„Gaman að sjá þig aftur“

Kom Guðlaugur í pontu öðru sinni og benti á að Loftslagsráðhefði sagt að núverandi aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sé ekki nógu skýr, ekki mælanleg og ekki nógu nákvæm.

„Hvernig vinna þau lönd sem við berum okkur saman við í aðgerðaráætlun? Þau gera það með atvinnulífinu og öðrum aðilum til þess að ná þessum markmiðum sem að loftslagsráð hefur vísað til. Það erum við búin að gera og það hefur tekið tíma,“ sagði Guðlaugur og bætti við að honum þætti leiðinlegt að háttvirtur þingmaður yfirgæfi þingsalinn þegar honum væri svarað. „Háttvirtur þingmaður verður að eiga það við sig. Það er gaman að sjá þig aftur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“