Hjartaknúsarinn Joe Magnaniello frumsýndi um helgina nýju kærustuna sína, leikkonuna Caitlin O‘Connor, á rauða dreglinum. Þrettán ára aldursmunur er á parinu en Joe er 46 ára og Caitlin 33. Fram að þessu hafði aðeins verið uppi orðrómur um samband þeirra.
Segja má að áhugafólk um ástarlíf Hollywood-stjarna sé enn að ná áttum eftir að greint var frá því í sumar að Joe hefði óvænt sótt um skilnað frá leikkonunni Sofia Vergara. Þau höfðu verið gift í átta ár og voru í hópi glæsilegustu og dáðustu para Hollywood.
Talið er að deilur um barneignir hafi orðið til þess að upp úr sambandi Joe og Sofiu slitnaði en hann er sagður þrá að eignast barn og það hafi Sofia ekki viljað.