fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Húsfélagsfarsi í Hafnarfirði – Formaður húsfélags tók sér einræðisvald en mátti sín lítils gegn ryðvörðum nágranna

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. desember 2023 15:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigandi fyrirtækisins Hjá Smára Hólm, Smári Hólm Kristófersson, sem sérhæfir sig í að ryðverja bifreiðar, hafði betur gegn húsfélagi sínu í dómsmáli sem höfðað var vegna meintrar skuldar. Dómari taldi að skuldina mætti rekja til ólögmætrar ákvörðunar á húsfundi, þar sem formaður húsfélagsins hafi tekið ákvörðun sem varðaði hans eigin hagsmuni með beinum hætti.

Um er að ræða atvinnuhúsnæði í Suðurhellu í Hafnarfirði. Þar er Hjá Smára Hólm ehf. til húsa. Samkvæmt dómi höfðu deilur átt sér stað innan húsfélagsins í nokkurn tíma út af meintri mengun frá starfsemi Smára, en í henni sé notast við efnið prólan sem mengi töluvert. Loftræstingu væri ábótavant og væri öðrum eigendum til ama.

Margoft beðið um úrbætur

Í fundargerð formanns húsfélagsins frá september 2020 segir:

„Fjallað var um viðvarandi mengun vegna starfsemi, Hjá Smára Hólm ehf., ryðvörn virðist vera aðalstarfsemi þess fyrirtækis og loftræstir Smári Hólm vinnurými sitt út á bílastæði Suðurhellu 10, með blásara undir iðnaðarhurð að austanverðu og út um gönguhurð að vestanverðu. Þetta veldur bæði mikilli lyktamengun sem og sjáanlegri fitumengun á bílastæði og á húsvegg. Þetta hefur viðgengist frá því í janúar á þessu ári eða frá því að, Hjá Smára Hólm ehf. kom í húsið. Margoft er búið að biðja um úrbætur, þ.e. viðurkenndan hreinsibúnað en ekkert skeður í þeim efnum. Samþykkt að Smári myndi nú þegar hætta þessari loftræstingu og setja upp viðurkenndan búnað, ekki þýðir að biðja um frekari frest þar sem Smári hefur nú þegar haft tíma frá janúar til að framkvæma þetta.

Ef Smári verður ekki við þessari beiðni verður farið í þær aðgerðir sem þarf til að stöðva þetta.“

Var í kjölfarið leitað til heilbrigðiseftirlitsins sem staðfesti að loftræstingu væri ábótavant og var Smára gefinn frestur til að koma fyrir loftræstiröri, sem hann og gerði, í góðri trú um að húsfélagi hefði ekkert við það að athuga, enda þeirra krafa að bætt yrði úr málum.

Raunin reyndist þó önnur. Formaður húsfélagsins sendi áskorun á Smára um að taka loftræstirörið aftur niður innan tveggja vikna, en annars myndi húsfélagið gera það sjálft og senda Smára reikninginn. Smári varð ekki við þessari beiðni og var rörið þá tekið niður af fyrirtæki í eigu formannsins. Svo fékk Smári sendan reikning fyrir 108.500 krónum fyrir framkvæmdinni.

Þennan reikning ætlaði Smári ekki að greiða og höfðaði því húsfélagið mál gegn honum. Vísaði húsfélagið til þess að loftræstirörið hafi verið sett upp án byggingarleyfis. Eins hafi framkvæmdin verið í andstöðu við húsreglur þar sem leyfis hafi ekki verið aflað hjá öðrum eigendum.

Reynt að hýða hann til hlýðni

Smári greip til varna og benti á að formaður húsfélagsins, eigandi sex eignarhluta af átta, hafi beinlínis krafið hann um að setja rörið upp. Undir þá kröfu hafi heilbrigðiseftirlitið tekið. Framkvæmdin hafi því verið samþykkt. Smári furðaði sig á framgöngu húsfélagsins í málinu sem væri í engu samræmi við afstöðu þeirra til annarra eigenda sem hefðu ráðist í umfangsmeiri framkvæmdir, til dæmis að setja upp svalir. Ljóst væri að formaður húsfélagsins hafi tekið sér einræðisvald í húsinu og „haldið um tauma húsfélagsins með þeim hætti sem honum sýndist og farið sínu fram.“

Líklega væri hér um að ræða eins konar þvingunaraðgerð, en Smári hafi sett sig gegn breyttu deiliskipulagi sem formaðurinn þurfti samþykki fyrir. Með loftræstirörinu væri greinilega stefnt að því að þvinga hann til að samþykkja.

Dómari tók undir með Smára að ýmislegt væri bogið við málið. Fundargerðir frá húsfundum væru ekki í samræmi við áskilnað laga en bæru samt með sér að Smári hefði verið í góðri trú um að loftræstirörið mætti rísa. Við þetta megi bæta að umdeildur reikningur stafi frá félagi í eigu formanns húsfélagsins, sem sé eigandi 75% eignarhluta í húsinu. Þar með hafi formaðurinn tekið meirihlutaákvörðun á húsfundi um aðgerð sem varðaði beinlínis hans eigin hagsmuni, bæði persónulega og fjárhagslega. Samkvæmt lögum megi fyrirsvarsmaður félags ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um mál sem varði hann sjálfan hjá húsfélagi. Smári þarf því ekki að borga og situr húsfélagið uppi með reikning frá lögmanni upp á 1,2 milljónir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“