Fyrrum landsliðsmaðurinn og nú landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Íslenska kvennalandsliðið er á leið í umspil A-deildar Þjóðadeildarinnar í febrúar en ekki verður hægt að spila á Laugardalsvelli. KSÍ hefur ákveðið að fara með leikinn úr landi frekar en að spila á gervigrasvelli hér á landi.
„Ég er mjög ósammála þessu,“ sagði Hrafnkell um ákvörðun KSÍ.
Hann bendir á að landsliðsmenn hafi oft spilað á gervigrasi og að það geti hjálpað.
„Við eigum alltaf að spila hér á Íslandi. Sama þó það verði í hádeginu á föstudegi eða eitthvað. Bara fara með þetta á Hlíðarenda, Árbæinn eða eitthvað svoleiðis. Við munum alltaf hafa meira edge þar. Allar þessar stelpur hafa æft og spilað á gervigrasi í yngri flokkum.“
Helgi tók til máls.
„Er þetta ekki bara ákveðið prinsipp? Við ætlum ekki að spila landsleik á litlum gervigrasleikvangi á virkum degi á meðan það er bjart úti,“ sagði hann, en þó einhverjir vellir hér á landi séu löglegir eru flóðljósin það ekki og þyrfti að spila á meðan bjart er úti.
„Ég held að þetta sé pólitískt. Það er bara verið að senda einhver skilaboð,“ sagði Hrafnkell að lokum um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum hér ofar.