fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Ofbeldisatvik í Sporthúsinu dregur dilk á eftir sér – Eigandi Superform fær dæmdar milljónir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 8. desember 2023 13:00

Mynd: Hari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðasta mánuði félag sem á líkamsræktarstöðina Sporthúsið til að greiða eiganda vörumerkisins Superform 6 milljónir króna vegna vanefnda á kaupsamningi, auk 1,2 milljóna í málskostnað.

Sumarið 2022 birti DV frétt um uppákomu sem varð á æfingu í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Samkvæmt heimildum DV gerðist þá þjálfari á æfingatíma sig sekan um að slá konu sem var við æfinga utan undir og ausa yfir hana svívirðingum. Þjálfarinn sem hér um ræðir var eigandi vörumerkisins Superform, en á bak við vörumerkið er sérstök tegund af æfingaprógrammi sem var stundað mikið í Sporthúsinu.

Eigandi Sporthússins birti yfirlýsingu vegna atviksins í lokuðum Facebook-hópi og þar segir:

„Þann 1. júlí sl. varð atvik í æfingatíma Superform sem við hörmum og þykir ákaflega leiðinlegt. Málið var strax tekið föstum tökum, rætt við hlutaðeigandi og viðkomandi beðinn afsökunar. Í því samfélagi sem við eigum saman í Sporthúsinu og Superform gerum við þá kröfu til þjálfara, annarra starfsmanna og iðkenda að háttvísi sé í hávegum höfð í öllum samskiptum. Við viljum að öllum sem taka þátt í starfi okkar líði vel og upplifi sig örugga.“

Þann 23. febrúar á þessu ári stefndi eigandi Superform síðan eigendum Sporthússins vegna vanefnda á kaupsamningi varðandi kaup á Superform. Krafðist hann sex milljóna króna.

Í málatilbúnaði eigenda Sporthússins segir að eigandi Superform hefði með hegðun sinni varpað rýrð á vörumerkið og gert notkun þess ótæka. Í texta dómsins kemur fram að eigandi Superform telur sig hafa verið þvingaðan til að selja vörumerkið:

 „Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 14. nóvember 2022 til Sportvalla ehf. (Sporthússins) er vakin athygli á því að 7. júlí 2022 hafi honum verið settir afarkostir á fundi eiganda Sporthússins í kjölfar atviks sem hafi átt að hafa gerst í hóptíma hjá stefnanda 1. sama mánaðar í Sporthúsinu þar sem hann hafi starfað. Stefnandi hafi starfað í Sporthúsinu og byggt upp líkamsræktarnámskeið undir vörumerkinu Superform. Á fundinum hafi stefnanda verið gefnir tveir kostir þ.e. að vera rekinn eða hann framseldi rekstur sinn til Sporthússins. Stefnandi hafi metið það svo að hann væri nauðbeygður til að selja reksturinn annars yrði gert út af við hann og honum valdið tjóni. Stefnandi hafi því verið þvingaður til að selja fyrirtæki sitt til Sporthússins fyrir fjárhæð sem stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til að semja um.

Samkvæmt bréfi lögmannsins hafi birst frétt í fjölmiðlum daginn eftir nefndan fund um að stefnandi hafi átt að hafa slegið konu, við æfingar í Sporthúsinu, í andlitið og ausið yfir hana svívirðingum sem ekki sé rétt. Í fréttinni hafi einnig komið fram að Sporthúsið hafi yfirtekið starfsemi Superform. Starfsemi stefnanda sem Sporthúsið hafi yfirtekið nokkru seinna hafi verið lífsviðurværi stefnanda sem hann hafi byggt upp undanfarin áratug. Sporthúsið hafi þvingað stefnanda til að selja lífsviðurværi sitt og sakað hann um háttsemi sem hann hafi ekki gerst sekur um. Þá hafi stefnanda verið gert óheimilt að starfa við þjálfun á Suðurnesjum í þrjú ár.“

Taldi forsendur kaupsamningsins brostnar – dómari ósammála

Eigendur Sporthússins töldu að eigandi Superform hefði vanefnt kaupsamninginn. Segir meðal annars um þennan forsendubrest:

„Stefndi byggir enn fremur á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgerða og vanefndar stefnanda. Þannig hafi fallið á stefnda ófyrirséður kostnaður m.a. liggi fyrir að framganga stefnanda hafi orðið til þess að stefndi geti ekki notað vörumerkið Superform, sem hann hafi framleigt til Sportvalla ehf. en fyrir liggi að frá 2. janúar 2023 hafi námskeið verið auglýst með öðrum formerkjum.“

Dómari í málinu taldi hins vegar ekkert í gögnum málsins sýna fram á að kaupunum hefði verið rift. Samningurinn sé því enn í gildi og hann beri að efna. Gengur því dómarinn að öllum kröfum eiganda Superform og dæmir eigendur Sporthússins til að greiða honum 6 milljónir króna og 1,2 milljónir í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“