Dagbjört ólst upp í Háaleitishverfinu í Reykjavík. Hún æfði ballett, stundaði leiklist og var mjög lífsglöð stelpa til tólf ára aldurs. Þá lenti hún í áfalli sem hafði mikil áhrif á hana og tók hana mörg ár að finna lífsgleðina og trúna á sér sjálfri aftur. Hún var lögð í einelti frá þrettán ára aldri sem braut það litla sjálfstraust sem var eftir.
„Ég fjarlægðist það sem ég elskaði, sem er tónlist, dans, þessi lífsgleði, lifa í núinu, ég hef alltaf verið þannig frá upphafi, þar til þetta breyttist.“
Dagbjört, sem er fædd árið 1994, samdi fyrsta lagið sitt árið 2015. „Ég var þó ekki tilbúin á þeim tíma til að hætta því sem ég þurfti til að geta fundið fyrir árangri í þessu,“ segir hún.
Lagatextar hennar eru mjög persónulegir og hún hikar ekki við að fara djúpt og fjalla um áföll og erfiða tíma, fall hennar og upprisu.
„Það er mjög náttúrulegt fyrir mig að leita inn á við, samt ekki. Ég byrjaði að vinna í sjálfri mér í byrjun 2019 en ég náði ekki að verða edrú fyrr en 2. desember 2019. Stuttu eftir það öðlaðist ég andlega vakningu, fór að trúa á æðri mátt, eitthvað æðra mér sjálfri, einhver hreinn kærleikur sem ég get ekki útskýrt en ég finn fyrir. Þessi kærleikur olli því að þessi gríma sem ég var alltaf með á mér, yfir andlitinu, hjartanu og sálinni, hún bráðnaði. Ég fór að vera alveg ég sjálf aftur og óhrædd, því ég vissi að hann væri hjá mér, þessi æðri máttur. Síðan þá hef ég verið mjög opin og í mikilli sjálfsvinnu. En ég var það alls ekki frá 12 ára til 25 ára aldurs, ég var mjög týnd á því tímabili.“
„Ég byrjaði að drekka þegar ég var sextán ára, Breezer fyrir busaball FÁ, basic. Fyrst var þetta bara geðveikt gaman, því þetta var svo mikill léttir fyrir mig. Eins og ég sagði áðan þá breyttist líf mitt þegar ég var tólf ára, ég varð mjög kvíðin, óörugg og efaðist um sjálfa mig,“ segir hún.
„Þetta var svo mikill léttir, ég fékk þetta áfengi inn í kerfið mitt og allt í einu var mér sama. Ég var ekki að spá hvað fólki fannst um mig, ég var ekki óttaslegin. Ég var bara: Jess, þetta er lausnin. Einhvern veginn náði ég að halda mér frá dagneyslu, eins mikið og mig langaði að drekka á hverjum degi því þá þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af neinu. En ég pældi aðeins of mikið í því sem fólki fannst.“
Allar helgar fóru í djamm og allir virkir dagar fóru í að telja niður í næstu helgi. „Ég var aldrei í núinu, ég var aldrei hér og nú heldur alltaf að hugsa um næstu helgi, hugsa um neysluna. Pældi ekkert í söngnum eða dansinum eða leiklist og því sem ég hafði vanalega áhuga á. Bara pæla í drykkju, næstu helgi, fór líka í grasreykingar af og til. Ég endaði á kókaínneyslu,“ segir hún.
„Ég prófaði fyrst kókaín í hrekkjavökupartýi árið 2017 og þá síversnaði neyslan mín. Fyrstu árin var þetta mikið djamm […] en svo endaði ég í harðri kókaínneyslu um helgar. Þá varð ég virkilega hrædd, þá fór hjartað mitt að slá svo hratt og ég varð hrædd um heilsuna mína og líf mitt og hrædd við að geta allt í einu ekki stoppað. Þá neyddist ég til að hætta, bæði út af líkamlegri heilsu og hvernig ég var orðin og hvernig ég var að koma fram við aðra,“ segir hún.
„Síðasta kvöldið var 1. desember, bingó hjá Siggu Kling […] Það kvöld drakk ég síðasta bjórinn minn. Svo var ég í bíl á leiðinni í eftirpartý og ætlaði að hringja mig inn veika í vinnuna en svo kom yfir mig: „Hvað er ég að gera? Drullaðu þér heim, hvað ertu að gera?“ Svo fór ég heim og fór að sofa, vaknaði til að fara í vinnuna og sá kvót á veggnum á kaffistofunni og þar stóð: „Lifðu lífi sem veitir þér vellíðan, ekki lífi sem lítur vel út.““
Í hádeginu fór Dagbjört á AA-fund og hefur verið edrú síðan.
Horfðu á þáttinn hér að ofan.
Fylgstu með Dagbjörtu á Instagram og TikTok. Þú getur hlustað á tónlistina hennar á Spotify og YouTube, smelltu hér til að hlusta á nýjustu smáskífuna hennar, Týnd á leiðinni heim.